152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að staðan á þessu máli sé þannig að unnið hafi verið að því á síðasta kjörtímabili að koma því fram. Ég tók síðan við þessum málaflokki í upphafi þessa kjörtímabils og ákvað strax að koma með þennan hluta verkefnisins inn í því skyni að reyna að fá skjóta afgreiðslu þingsins til að við gætum byrjað að safna upplýsingum. Sú áhersla sem er lögð á frekari breytingar á húsaleigulögunum, eins og hv. þingmaður vísaði til, byggist á heildstæðari og áreiðanlegri upplýsingum um leigumarkaðinn hér á landi en nú liggja fyrir. Við höfum, eins og ég fór yfir í framsögu minni, allt of takmarkaðar upplýsingar um hann og þær byggja á þinglýstum leigusamningum. Okkur vantar upplýsingar um fjárhæð samninga, lengd og tegundir. Þær upplýsingar sem munu safnast í þennan opinbera húsnæðisgrunn, við lögbundna skráningu allra leigusamninga, skapa betri grundvöll til að taka stefnumótandi ákvarðanir um hvernig við styrkjum stöðu leigjenda og bætum kjör þeirra.

Hv. þingmaður nefndi nokkra hluti og ég ætla ekki að tjá mig um það hvort ég sé sammála eða ósammála þeim leiðum. Ég veit hins vegar að í löndunum í kringum okkur eru mjög mismunandi leiðir farnar. Mér finnst ekki skynsamlegt, við þær aðstæður sem uppi eru, þegar við vitum of lítið um leigumarkaðinn, að ákveða það hér og nú að ein leið sé betri en önnur. Ég legg því áherslu á að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu svo að við getum farið að fá áreiðanlegar upplýsingar sem við getum tekið stefnumótandi ákvarðanir út frá.