152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það einfaldlega þannig að ríkisstjórn Íslands skuldbatt sig, með yfirlýsingu við gerð kjarasamninga 2019, til að hafa forgöngu um lagabreytingar til að verja leigjendur betur, styrkja réttarstöðu þeirra og tryggja vernd þeirra þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar, eins og það er orðað hér. Þá skýtur kannski svolítið skökku við að koma nokkrum árum seinna og segja að ekki sé tímabært að úttala sig neitt um það hvernig eigi að gera það vegna þess að við höfum einfaldlega ekki grundvöll til þess. Ég skildi hæstv. ráðherra á þann veg að það væri þá fyrst og fremst á ábyrgð forvera hans í embætti sem hefði þá ekki sinnt þessu, a.m.k. fann hæstv. ráðherra sig knúinn til að taka fram að hann væri nýtekinn við þessum málaflokki sem er auðvitað alveg hárrétt.

Ég vil kannski fá að spyrja hér í seinni umferð, vegna þess að hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á að auka framboð af leiguhúsnæði, hvort til greina komi í hans huga að falla frá þeim niðurskurði sem boðaður er í fjármálaáætlun þegar kemur að stofnframlögum inn í almenna íbúðakerfið, hvort það sé ekki í algeru ósamræmi við orð hans, um mikilvægi þess að auka framboð af leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði, að vera um leið að knýja fram fækkun leiguhúsnæðis miðað við íbúafjölda og vaxandi fjölda á komandi árum með því að lækka stofnframlögin um 2 milljarða í þeirri fjármálaáætlun sem liggur fyrir.