152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég tel rétt og skylt að taka til máls við 1. umr. um þetta frumvarp hæstv. innviðaráðherra sem er lagt fram hér í góðum ásetningi. En ég hef ýmislegt við frumvarpið að athuga. Það kemur ráðherranum ekki á óvart og ætti í raun ekki að koma neinum á óvart sem hefur einhverja nasasjón af þeim hugmyndum sem ég hef og stend fyrir í stjórnmálum. Ég ætla ekki að rekja, frú forseti, frumvarpið efnislega. Ráðherra gerði það ágætlega og skilmerkilega í ræðu sinni. En þær kvaðir sem er verið að leggja á leigusala, sektarheimildir sem er verið að veita Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og með hvaða hætti verið er að auka eftirlitshlutverk þeirrar stofnunar er í besta falli umhugsunarvert og í versta falli mjög varhugavert.

Í greinargerð frumvarpsins segir á einum stað að það þyki mikilvægt að hið opinbera, í þessu tilfelli er það Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, komi með skýrum hætti að húsaleigumálum enda þótt um einkaréttarlega löggjöf sé að ræða. Þetta er auðvitað lykilatriðið í málinu og lykilatriði í gagnrýni minni á frumvarpið. Hér er um einkaréttarlega samninga að ræða og þegar menn ætla ríkisvaldinu, ríkisstofnun, að fylgjast með og skrá niður einkaréttarlega samninga þá verða menn að hugsa sig vel um, hvort tilgangurinn helgi meðalið.

Með frumvarpinu er auðvitað verið að ganga gegn samningsfrelsi einstaklinga í einkaréttarlegum samningum, í þessu tilfelli í leigu á húsnæði á almennum markaði. Það er verið að gera það að skilyrði fyrir gildi samninganna og breytingum á hugsanlegum leigufjárhæðum að gildi samninganna ráðist af aðkomu ríkisins og þeir séu skráðir í sérstökum gagnagrunni ríkisins, annars séu þeir í raun ekki í gildi. Þetta er þróun sem verður að vara við, ekki bara á leigumarkaði sérstaklega heldur almennt. Í þessu tilfelli erum við að tala um leigumarkað. Síðan koma auðvitað inn viðurlög, stjórnvaldssektir sem geta numið allt að 1 millj. kr. ef einstaklingar vilja af einhverjum ástæðum ekki skrásetja samninga sína, einkaréttarlega samninga.

Tilgangurinn með þessu — og ég skil tilganginn, ég skil að stjórnvöld telji nauðsynlegt að búa yfir betri upplýsingum um leigumarkaðinn. Það má líka segja um ýmislegt annað í íslensku samfélagi, að það væri gott og gagnlegt að hafa betri upplýsingar um ýmislegt sem fram fer í íslensku samfélagi. En það getur aldrei verið réttlæting fyrir því að ríkið teygi sig inn í og hafi afskipti af og krefjist þess að einstaklingar geri grein fyrir og skrái allar sínar gjörðir eða allt sem fram fer á milli tveggja frjálsra einstaklinga. Þetta er auðvitað atriði sem ég vara eindregið við. Tilgangurinn er göfugur en ég óttast að afleiðingarnar geti verið með þeim hætti að þær verði verri en það sem við náum fram. Og annað er: Ég óttast að nái frumvarpið fram að ganga muni það hafa þveröfug áhrif á leigumarkaðinn en að er stefnt, þ.e. að það muni gera hann óheilbrigðari.

Í fyrsta lagi er nokkuð ljóst að einhver hluti af leigumarkaðinum fer undir hið svarta hagkerfi. Fólk sér ekki tilgang í að skrásetja leigusamninga, neitar að gera skriflegan leigusamning við leigjanda sem getur síðan farið til sýslumanns og þinglýst samningnum og tryggt réttarstöðu sína með þeim hætti. En það mun líka verða til þess að einstaklingar sem eru að leigja íbúð sem viðkomandi eiga sjá ekki neinn tilgang í að leigja hana vegna þess að vesenið, skriffinnskan, er orðið of mikið. Viðkomandi taka þá íbúðina af leigumarkaði, hætta að leigja hana út. Ef það gerist að við sjáum framboð á leigumarkaði skreppa saman vegna þessa hittir það auðvitað fyrst og fremst þá fyrir sem eru á leigumarkaði og mun valda hækkun á leiguverði. Svo megum við ekki gleyma einu. Það er auðvitað verið að búa til bákn. Það er verið að auka skriffinnsku. Það er verið að auka afskipti af eðlilegum samskiptum tveggja einstaklinga eða fjölskyldna. Það er verið að setja stóra bróður á enn eina vaktina í íslensku samfélagi.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en vil þó taka fram að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gerði efnislega athugasemd við frumvarpið. Nokkrir þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal sá er hér stendur, telja sér ekki fært að styðja frumvarpið í óbreyttri mynd en munu ekki standa í vegi fyrir því að það nái fram að ganga.