152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér breytingar á húsaleigulögum, mjög mikilvægar breytingar sem fela í sér að komið verði á skráningarskyldu vegna leigusamninga í opinberan gagnagrunn og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veittar sektarheimildir. Ég tek heils hugar undir það, sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins, að slík opinber skráning leigusamninga ætti að geta stóreflt greiningar á leigumarkaðnum og auðveldað markvissa ákvarðanatöku hins opinbera í stefnumótun á sviði húsnæðismála. Ég held að með þessu sé verið að stíga mikilvægt skref og skapa grundvöll fyrir frekari afskipti hins opinbera af leigumarkaðnum í framtíðinni, skynsamleg afskipti til að tryggja að markaðurinn virki fyrir alla. Það er nefnilega þannig að markaðir virka best þegar þeir eru sanngjarnir, þegar það er ekki þannig að annar aðilinn hefur yfirburðasamningsstöðu gagnvart hinum o.s.frv.

Á leigumarkaðnum á Íslandi hefur ríkt ákveðið svikalogn núna í Covid. En blikur eru á lofti. Við erum farin að sjá leiguverð hækka hraðar en verðlag og hætt er við því að sú þróun ágerist eftir því sem ferðamönnum fjölgar, íbúðir fara aftur í Airbnb-leigu og hagkerfið heldur áfram að taka við sér. Fasteignaverð og leiguverð fylgjast yfirleitt að til langs tíma og sú brjálæðislega þróun sem við höfum orðið vitni að á fasteignamarkaði á undanförnum árum ætti að gefa okkur tilefni til að huga sérstaklega að stöðu þeirra sem leigja, og búa alla jafna við miklu lakari fjárhagsstöðu en þau sem eiga húsnæði.

Rúmlega 20% heimila eru á leigumarkaði, þetta er mestmegnis lágtekjufólk. Staða þessa hóps hefur versnað frá 2006 en staða eigenda íbúðarhúsnæðis hefur skánað, einkum vegna lækkandi vaxta á síðustu árum. Í dag er það þannig að að meðaltali tekur íbúðaleiga um 45% ráðstöfunartekna og umtalsverður hluti leigjenda er með óhóflega háa leigubyrði, við hljótum að geta sammælst um það. Tölur frá OECD sýna líka að staða lágtekjufólks á íslenskum leigumarkaði er óvenjuslæm og ekki í neinu samræmi við hið almenna hagsældarstig þjóðarinnar. Leiga er há á alþjóðamælikvarða og húsaleigubætur hafa ekki fylgt hækkandi leigu síðastliðinn áratug. Auk þess eru opinber útgjöld vegna húsaleigubóta tiltölulega lág hér samanborið við helstu grannríkin. Ég vona því að við getum sameinast um að láta húsaleigubætur eða húsnæðisbætur, eins og þær heita núna, minnir mig, hækka talsvert á komandi árum um leið og við grípum til aðgerða til að stemma stigu við taumlausum hækkunum á leigumarkaði.

Í 4. gr. frumvarpsins, sem við ræðum hér í dag, er mælt fyrir um viðurlög ef samningar eru ekki skráðir eða hækkun leigu ekki skráð. Gert er ráð fyrir stjórnvaldssektum í ríkissjóð vegna slíkra brota. Ég hef dálitlar efasemdir um virkni þessara úrræða eins og þau eru hönnuð í frumvarpinu. Ég velti fyrir mér hvort betur færi á því að það væri bara févíti vegna brotanna sem rynni þá til leigjandans sem innborgun á leigunni. Þannig yrði beinn fjárhagslegur ávinningur og virkur hvati til þess að fylgja skráningarskyldunni eftir. Þetta væri ein leið. Nú er það auðvitað þannig að í 37. gr. gildandi húsaleigulaga er þegar mælt fyrir um að leigufjárhæð skuli jafnan vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila — þetta er svolítið athyglisvert orðalag, jafnan vera sanngjörn, hún hlýtur þá í einstaka tilvikum að mega vera ósanngjörn eða óeðlileg. Látum það liggja á milli hluta. En vandinn er sá að þessi 37. gr. er dauður bókstafur. Þetta er grein sem hefur ekki haft neina alvöruvirkni hér. Í frumvarpinu eru hins vegar lagðar til breytingar sem skýra betur hvað felst í sanngjarnri og eðlilegri leigufjárhæð. Það ásamt skráningarskyldunni og sektarheimildunum ætti að verða til þess að ljá þessari grein einhverja alvörumerkingu. Við skulum samt hafa í huga að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum viðurlögum vegna ólögmætrar hækkunar á leigu. Viðurlögin eru bara vegna brota gegn skráningarskyldunni sjálfri. Það má auðvitað velta fyrir sér hvort ganga ætti lengra að þessu leyti.

Eins ítreka ég þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, og kannski að hluta til í andsvari mínu áðan, þ.e. að ég held að til að koma almennilega til móts við þennan hóp, sem er í slæmri stöðu á leigumarkaði, þurfi að setja reglur af einhverju tagi til að verja fólk með beinum hætti fyrir óhóflegum hækkunum á leigufjárhæð.

Mikilvæg skref eru stigin í frumvarpinu en þetta er ekki í samræmi við það sem kom fram í lífskjarasamningunum, þ.e. í yfirlýsingu stjórnvalda sem var gefin út við undirritun lífskjarasamninga. Þar var talað sérstaklega um vernd þegar kæmi að hækkun leigufjárhæðar og ég held að það væri útúrsnúningur að líta svo á að efni þessa frumvarps sé í samræmi við það. Það er alveg augljóst að verkalýðshreyfingin gerði ráð fyrir einhvers konar vísi að leigubremsu eða leiguþaki eins og er við lýði víða í Evrópu. Ég held því að næsta skref, hvort sem það yrði stigið með breytingum á þessu tiltekna frumvarpi eða með öðru frumvarpi, vonandi sem fyrst, hljóti að vera að koma upp skikkanlegum leigumarkaði á Íslandi með því t.d. að sveitarfélög fái einhverjar afgerandi heimildir til að hafa hemil á hækkunum leigufjárhæðar, hvort sem það eru sveitarfélög eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, eitthvert samstarf þar á milli, reglugerð frá ráðherra — það eru ýmsar leiðir til að útfæra þetta og ég held að fara þurfi vel yfir hvað hefur reynst best í nágrannalöndunum.

Rétt að lokum, vegna þess að við ræddum hér áðan um stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið, þá er það auðvitað þannig að þótt tímabundið hökt hafi orðið á því að láta stofnframlög ganga út þá réttlætir það ekki að stofnframlögin verði keyrð niður á næstu tveimur til þremur árum. Reykjavíkurborg gerir t.d. ráð fyrir að auka framboð af lóðum, og í raun tvöfalda úthlutun lóða, á næsta kjörtímabili þannig að hægt verði að byggja sem nemur u.þ.b. 2.000 íbúðum. Oddviti Framsóknarflokks í borginni, sem ekki er ólíklegt að muni tilheyra meiri hlutanum, hefur reyndar talað um að það ætti að vera hægt að úthluta lóðum fyrir allt að 3.000 íbúðir á ári. Þá mun virkilega skipta máli að það komi stofnframlög frá ríkinu til að drjúgur hluti þeirrar íbúðauppbyggingar verði á félagslegum forsendum. Reykjavíkurborg hefur t.d. markað þá stefnu að minnst 25% húsnæðisuppbyggingar á hverjum reit sé varið til félagslegrar húsnæðisuppbyggingar og til að halda þeirri stefnu til streitu má ríkið ekki fara að draga saman seglin þegar kemur að opinberum stuðningi við félagslegt húsnæðisöryggi, við almenna íbúðakerfið, við hljótum að geta verið sammála um það. Vonandi verður þessu kippt í liðinn, ef ekki nú þegar við afgreiðum fjármálaáætlun á þinginu í þessari umferð þá a.m.k. í þeirri næstu.