152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[17:42]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Frú forseti. Hæstv. innviðaráðherra hefur hér kynnt tillögu sína til þingsályktunar um stefnumótun í byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, yfirgripsmikla áætlun. Ég ætla að halda mig við tiltölulega afmarkaðan og lítinn hluta þeirrar áætlunar í þetta skipti. Mig langar að fara beint í B-hluta og undir honum j-lið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Til að ná fram markmiðum um kolefnishlutleysi Íslands verði unnið að verndun og bindingu kolefnis í jarðvegi með endurheimt vistkerfa, landgræðslu og skógrækt og unnið að því að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með endurheimt votlendis og sjálfbærri landnýtingu.“

Mér segir svo hugur að það sé dálítið langt síðan að þessi punktur var skrifaður inn í tillöguna. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í Bændablaðið frá 7. apríl en þar má finna grein undir yfirskriftinni „Ný rannsókn á kolefnislosun ræktanlegs lands á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands gæti kollvarpað fyrri hugmyndum: Langtímalosun kolefnis úr framræstu ræktarlandi er líklega margfalt minni en fullyrt hefur verið.“

Í greininni kemur fram að meðaltalsmunur á milli íslensku rannsóknarinnar og fullyrðinga stjórnvalda, stofnana og hagsmunaaðila, um losun kolefnis, sé 88,65%. Það hefur lengi verið kallað eftir því að þessi mál yrðu rannsökuð betur þar sem það kaupa ekki allir þau gífuryrði sem höfð hafa verið uppi í þessari umræðu undanfarin misseri og ár og nú er margt sem bendir til þess að menn hafi haft sitthvað fyrir sér í þeirri umræðu. Mig langar aftur að grípa örstutt niður í Bændablaðið:

„Ef við setjum þetta í samhengi við tölur Umhverfisstofnunar, þá er losunin frá landnotkun ekki 9,07 milljónir tonna CO2-ígilda á ári, heldur rétt rúmlega 1 milljón tonn.

Ef tölur umhverfisráðuneytis frá 2019 eru notaðar þá var heildarlosun Íslands vegna framræsts lands um 8,4 milljónir tonna af CO2. Miðað við nýju rannsóknirnar næmi losunin því ekki nema um 953.000 tonnum.“

Við hér erum vön skekkjumörkum þegar við erum að tala saman en þetta eru engin venjuleg skekkjumörk eða vikmörk. Og aftur, frú forseti, tilvitnun í Bændablaðið:

„Þessar tölur hljóta að æpa á að frekari rannsóknir verði gerðar strax næsta sumar. Þetta gæti líka mögulega þýtt að allar fullyrðingar um losun CO2 frá landbúnaði á Íslandi séu hrikalega ýktar.“

Þetta verða kjörnir fulltrúar í þessum sal að taka alvarlega því að undir þessum áróðri hefur íslenskur landbúnaður setið nú í mörg ár. Við sem búum og störfum úti á landi og keyrum fram hjá skurðum sem eru inni í þessari tölu, skurðum sem teknir voru 1940, nánast fallnir að fullu saman 1980, landið farið að blotna upp aftur fyrir árþúsundamótin — þetta er allt inni í þessum tölum.

Hæstv. innviðaráðherra er að vísu ekki staddur í salnum akkúrat núna en hann sagði að hann myndi skoða þær spurningar sem ég hefði fram að færa. Mig langar því að spyrja hæstv. innviðaráðherra hvort ekki sé ástæða til að taka þennan j-lið hreinlega út úr þingsályktunartillögunni á meðan við erum að komast í gegnum það rannsóknarferli sem er fram undan og mun að öllum líkindum taka talsvert langan tíma, jafnvel ár, því að þetta ber það einhvern veginn með sér að hafa verið skrifað inn í tillöguna fyrir löngu og vera, eins og sumt annað í tillögunni, fyrst og fremst til þess ætlað að haka í sem allra flest box og til að fá sem mest af fallegum hugtökum og fallegum orðum inn í tillöguna.

Að sama skapi langar mig, frú forseti, að dvelja örstutt við það sem fram kemur í þessari yfirgripsmiklu þingsályktunartillögu. Það er sem sagt undir C-hluta, g-liður. Þar vakti athygli mína eftirfarandi texti, frú forseti:

„Tryggt verði nægilegt framboð af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði með fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu húsnæði hamlar eðlilegri framþróun og uppbyggingu byggðarlaga og atvinnulífs.“

Hér er líka um að ræða fallega setningu sem óskaplega auðvelt er að taka undir. Það sem ég átta mig hins vegar ekki alveg á, og hefði viljað fá svör við frá hæstv. innviðaráðherra, er hvernig ráðuneytið hyggst glíma við þetta mál því að hér erum við komin inn á skipulagsvald og skipulagssvið sveitarfélaga. Það hlýtur því að þurfa að eiga sér stað eitthvert samtal milli innviðaráðherra og fulltrúa íslenskra sveitarfélaga. Þetta er ekki eitthvað sem innviðaráðherra eða ráðuneytið getur gert, komið með einhver verkfæri til að hrinda þessu í framkvæmd, þó að markmiðið sé gott, öðruvísi en í fullu samráði og í góðu samtali við fulltrúa íslenskra sveitarfélaga.

Rétt í lokin, frú forseti, þá er undir sama hluta n-liður:

„Skoðaðir verði möguleikar á beitingu hagrænna hvata sem tækis í byggðaþróun, svo sem að nýta ívilnanaheimildir laga um Menntasjóð námsmanna til endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og svæða.“

Þetta er líka falleg setning, falleg málsgrein. En hvað fleira? Þetta eitt og sér er ekki nóg. Ég er búinn að fara í gegnum tillöguna og eitt og annað er nefnt. En það er einhvern veginn ekkert sem hönd á festir, nákvæmlega hvað hæstv. innviðaráðherra meinar með „svo sem“. Nákvæmlega þetta atriði er tekið fram víðar í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. nýting ívilnanaheimilda Menntasjóðs námsmanna til endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og svæða, en ég sakna þess að sjá svolítið meira afgerandi útfærslu á því hvaða ívilnanir koma til greina af hálfu innviðaráðherra. Það eru stórir kaflar þarna um hluti eins og brothættar byggðir sem er verkefni sem í eðli sínu er ekki ósvipað öðru gömlu verkefni sem hét, ef ég man rétt, Vestfjarðaaðstoð. Mér þykir allt benda til þess að við séum enn föst í þessari hugmyndafræði bútasaums, þ.e. að nálgast ekki málið í heild. Það er hægt að framkvæma og ná fram markmiðum svona verkefna með miklu einfaldari hætti, að mínu mati, með almennari aðgerðum. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar sem var hér áðan, sem voru eitthvað á þessa leið: Hafið bara innviðina í lagi og hættið að þvælast fyrir. Þegar upp er staðið er það kannski svolítið það sem á landsbyggðin er að kalla eftir, að við hættum að miðstýra þessum aðgerðum héðan úr þessum sal.

Ég get á þessum síðustu sekúndum hent inn einni hugmynd í umræðuna, bæði að breskri og norskri fyrirmynd: Er ekki bara kominn tími til að lækka álögur úti á landi á þessum köldu svæðum fyrir fólk og fyrirtæki? Það er langeinfaldasta aðgerðin sem ríkið getur farið í og kostar ekkert utanumhald.