152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:13]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Það er ekkert voða langt á milli okkar í þessum efnum. Ég vil þó ganga lengra og tryggja aðkomu þingsins með skýrari hætti en gert er í frumvarpinu og kannski náum við saman í þeim efnum. En ég vil aðeins beina athyglinni að 8. gr. frumvarpsins og einnig að 16. gr., þ.e. annars vegar að skipan farsóttanefndar og hins vegar að jafnræði og meðalhófi o.s.frv. og til hvaða sjónarmiða eigi að líta þegar sóttvörnum er beitt.

Spurning mín ætti ekki að koma hæstv. ráðherra á óvart og kemur í raun inn á sérþekkingu ráðherrans, til þess er hann menntaður. Er ekki rétt að setja ákvæði í 8. gr. um að a.m.k. einn nefndarmanna hafi yfir að búa þekkingu er snertir félagshagfræðileg sjónarmið? Er það ekki nauðsynlegt, með sama hætti og hér eru eðli máls samkvæmt sjálfskipaðir ákveðnir embættismenn, að í farsóttanefnd sé til staðar þekking á sviði hagfræði og félagsfræði. Það leiðir mig að 16. gr. og ég spyr hvort ráðherra geti tekið undir það að þegar talað er um að gæta jafnræðis og meðalhófs sé nauðsynlegt að vísa skýrt til þess að utan hinna sóttvarnalegu sjónarmiða verði líka að taka tillit til efnahagslegra og félagslegra hagsmuna við mat á beitingu sóttvarnaaðgerða. Ég hygg að þetta geti líka skipt verulega miklu máli, ekki síst þegar kemur að því hvernig við stöndum undir þjóðfélaginu og sóttvarnaaðgerðum til frambúðar.