152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir góða yfirferð. Hv. þingmaður dró mjög vel fram þau álitamál sem hv. velferðarnefnd mun örugglega taka utan um í umfjöllun sinni, ég get tekið undir það. Velferðarnefnd mun örugglega kalla eftir umsögnum um þessa þætti og þetta mun örugglega koma fram í umsögnum, það sem snýr að þessum þáttum.

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég er kannski ekki í eiginlegu andsvari en ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni, það sem hún kom inn á í lok ræðu sinnar. Ég fór aðeins inn á það í framsögu minni að þetta snerti alla þætti samfélagsins. Við höfum reynslu af því í gegnum þennan faraldur að við þurfum að taka tillit til ólíkra hópa og ólíkrar stöðu. Hv. þingmaður kemur inn á barnasáttmálann og mannréttindasáttmálinn og stjórnarskráin eru mjög undirliggjandi í frumvarpinu. En ég held að það sé mjög gott að taka utan um þetta mál út frá ólíkri stöðu og taka börnin sérstaklega fyrir. Við reyndum svo sannarlega í gegnum þennan faraldur, þegar við vorum að taka ákvarðanir, oft hratt, að taka tillit til barnanna og hafa í huga hvað verið væri að gera í skólunum og á þeim vettvangi þar sem börn eru. Það er auðvitað hluti af lýðheilsu og við reyndum líka að vakta þetta í gegnum þennan faraldur. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni, það er mjög gott að hv. velferðarnefnd taki þetta til sérstakrar athugunar.