152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[19:09]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Frú forseti. Já, ég hef aðeins verið að skoða þetta og það er eitt atriði sem mig langar helst að tala um í tengslum við þetta frumvarp sem er mér mikið hjartans mál. Mig langar að vitna í frumvarpið, með leyfi forseta, en þar er verið að tala um mat á áhrifum:

„Samkvæmt frétt á vef dómsmálaráðuneytisins, dags. 27. janúar 2022, kemur fram að kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota fjölgaði um 24% frá 2020 til 2021 og að heimilisofbeldismál af hendi maka eða fyrrum maka síðustu tvö árin hafa aldrei verið fleiri samkvæmt málaskrá lögreglunnar, eða í kringum 750 talsins bæði árin.“

Þarna er ekki talað um á hversu mörgum heimilum börn eru viðstödd ofbeldið. Mér finnst kjörið tækifæri til að staldra aðeins við og spá í þessari staðreynd. Þetta raungerðist á þessum árum og úrræðin voru ekki mikil fyrir einstaklinga sem upplifðu ofbeldi inni á heimili af hendi maka, börn af hendi foreldra eða foreldrar af hendi barna, hvernig sem heimilisofbeldið var. Það er mikilvægt að staldra við og hugsa: Hvað ætlum við að gera við þessar tölur? Þessi staða gæti komið upp aftur og ég sakna þess að sjá einhverjar aðgerðir tengdar þessu. Það þarf að hafa í huga hvernig við ætlum að bregðast við ef þessi staða kemur aftur upp hvað varðar heimilisofbeldi, kynferðisafbrot. Það er kjörið tækifæri til að spýta í lófana í þessum málum vegna þess að það er deginum ljósara að ekki eru til nægilega mörg úrræði fyrir fólk sem upplifir heimilisofbeldi, fyrir börn sem upplifa ofbeldi. Þau eru bara ekki til, staðreyndin er bara sú.

Hvernig veit ég þetta? Jú, þegar ég er ekki hér sem varaþingmaður vinn ég sem sálfræðingur hjá Barnavernd Reykjavíkur. Ég tek viðtöl við börn og foreldra og fjölskyldur sem upplifa ofbeldi og mér finnst það umhugsunarvert að ekki sé spýtt í lófana og gert eitthvað róttækt í þessum málum nú þegar við stöndum frammi fyrir því að þetta gerðist. Mér finnst mikilvægt að tala um þetta vegna sérþekkingar minnar og einnig vegna þess að ég stóð með þessu fólki í hvirfilbylnum.

Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra noti tækifærið til að endurhugsa það hvernig við ætlum að útrýma heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum, ofbeldi á Íslandi, hvað við ætlum að gera. Það er engin trygging fyrir því að þetta gerist ekki aftur, eftir tvö ár, eftir tíu ár, eftir 100 ár. Og hvað ætlum við að gera? Fyrir utan það að í dag eru heldur ekki til nægilega góð úrræði. Staðreyndin er bara sú. Það þarf heldur betur að spýta í lófana þegar kemur að þessum mjög svo mikilvæga málaflokki sem er að miklu leyti vanræktur. Það er verið að reyna að gera smávegis hér og smávegis þar en það er bara ekki nóg, það er bara ekki gert nóg. Það þarf að gera meira. Það er mikilvægt að það sé rætt hvernig við ætlum að bregðast við ef mögulega yrði aukning á heimilisofbeldi.

Auðvitað á markmiðið að vera að útrýma heimilisofbeldi og gera það markvisst og vera með einhvers konar áætlun um það en alla vega, í ljósi þessara svakalegu talna sem við sáum þegar Covid geisaði hvað harðast — fyrir utan það að fólk var oft heima hjá sér og gat ekki leitað neitt. Það var allt lokað. Skólar voru lokaðir, vinnustaðir lokaðir. Mér finnst mikilvægt að meira sé rætt um ofbeldi, gerðar ítarlegri og markvissari áætlanir um hvernig eigi að takast á við heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum, ofbeldi inni á heimilum. Það væri sorglegt ef þessar tölur og það sem gerðist í Covid myndi ekki ýta við okkur í átt að því að takast í alvörunni á við þann gífurlega vanda sem við stöndum frammi fyrir. Það er ótrúlega mikið af góðu fólki og sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að takast á við þennan vanda en þetta er bara ekki mikið í forgrunni. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við pælum í þessu, að það sé einhvers konar viðbragð til staðar og talað um hvernig hægt væri að bregðast við ef þetta gerðist aftur — fyrir utan það að það þarf að gera miklu meira í dag þó að tölur um heimilisofbeldi verði mögulega lægri á þessu ári eða því næsta.

Ég vil nota tækifærið til að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra og aðra til að hugsa aðeins um þessi mál og spá í hvað hægt er að gera betur. Við þurfum ekki að bíða þangað til eitthvað slíkt gerist aftur, þetta er alltaf í gangi þó að það sé kannski ekki í jafnmiklum mæli og var þarna. Það er greinilegt, alla vega samkvæmt tölfræði frá Barnavernd Reykjavíkur, að heimilisofbeldismálum fjölgaði umtalsvert á þessum tíma. Við sjáum það, við vitum það. Þetta eru staðreyndir. Hvað ætlum við að gera? Hvernig ætlum við að bregðast við? Það er ekki nóg að hafa nánast eitt úrræði, mögulega tvö, til staðar, það er bara ekki nóg. Það þarf svo miklu meira. Við þurfum að styðja fólk á fyrri stigum og við þurfum að vera með snemmtæka íhlutun. Við þurfum að vera með miklu meiri samskipti við fólk á fyrri stigum þegar ofbeldi er í fjölskyldum, þegar fólk hefur verið beitt ofbeldi og þegar fólk beitir ofbeldi. Það eru til alls konar meðferðir, gagnreyndar meðferðir, fyrir fjölskyldur, fyrir þolendur, fyrir gerendur. Fyrir mér snýst þetta um vilja. Fyrir mér snýst þetta um kjörið tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að setja miklu meira púður í þennan málaflokk því að það yrði öllum til bóta. Auðvitað vilja allir útrýma ofbeldi. En hvernig er staðið að því, hvað ætlum við að gera og hvernig á það að bera árangur ef við ætlum ekki að bregðast við?