152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Tillagan tekur mið af bæði þingsályktun Alþingis um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og lýðheilsustefnu til ársins 2030. Þannig er í stefnu í geðheilbrigðismálum til næstu ára lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðnings við heilsueflingu á öllum æviskeiðum.

Helstu straumar og stefnur í geðheilbrigðismálum á heimsvísu sýna að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóða að auka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir töluverðar framfarir í geðheilbrigðismálum á undanförnum árum eru vísbendingar um að við Íslendingar stöndum frammi fyrir frekari áskorunum og hindrunum sem ryðja þarf úr vegi til að ná árangursríkari framförum til framtíðar. Samantekt niðurstaðna geðheilbrigðisþings, sem var haldið hér 2020, ásamt fyrri þverfaglegum greiningum og skýrslum um málaflokkinn, sýnir að það skortir heildstæðari og samhæfðari nálgun í geðheilbrigðismálum, allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfið. Þjónusta milli heilbrigðisþjónustustiga er að einhverju leyti brotakennd og ósamhæfð og samþætting við félagsþjónustu, skólaþjónustu eða aðra opinbera þjónustu er takmörkuð og skortur á þverfaglegum mannauði í geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum. Það er, virðulegi forseti, mjög áríðandi að við horfum þannig á hlutina til að við náum að ráða bót á þessum brýna málaflokki og finna lausnir á þessum áskorunum.

Framsetning þingsályktunartillögu um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 tekur þannig mið af því sem ég hef hér sagt og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum sem munu endurspeglast í þeim aðgerðaáætlunum sem unnar verða í kjölfar þessarar tillögu verði hún samþykkt af Alþingi. Hér má því segja að við séum að leggja upp með að móta stefnu og markmið, reyna að berja í þessa bresti, og gera kröfur um þessa þverfaglegu nálgun og skörun á milli kerfa, svo að þjónustan verði ekki eins brotakennd. Við höfum stigið einhver skref og þannig eru stefnumiðin sett fram í tillögunni. Við getum síðan haldið áfram með seinni hluta stefnumótunarinnar sem felst í aðgerðaáætlun og svo innleiðingu og eftirfylgni. Nú er nýlega komin skýrsla Ríkisendurskoðunar og þar kemur berlega í ljós að við þurfum í þessum seinni parti stefnumörkunar og hringrásar, þegar við ábyrgðarvæðum ákveðna þætti aðgerðaáætlunarinnar, að fylgja þeim miklu betur eftir og mæla hverju aðgerðirnar skila. Í þessari þingsályktunartillögu er verið að móta stefnuna og horfa á sýnina og framtíðina og vonandi getum við hér á Alþingi náð sátt um þessa stefnu þannig að við getum fylgt því eftir með aðgerðaáætlun.

Hér eru settir fram fjórir kjarnaþættir og áherslur sem aðgerðaáætlun getur síðan vonandi speglað sig í. Þessar áherslur til framtíðar í geðheilbrigðismálum þurfa að vera jafnt og greitt aðgengi að einfaldri, skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu hverju sinni, gæðaviðmiðum og nýsköpun og veitt af hæfu starfsfólki.

Ég ætla nú að gera mér far um, virðulegi forseti, að rekja meginefni tillögunnar. Fyrsti áhersluþátturinn sem ég nefni af þessum fjórum lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis. Það er mikilvægt að hlúa að geðheilsu alla ævi. Þegar fólk hefur góða geðheilsu líður því betur og finnst það í stakk búið að takast á við lífið. Þá erum við eðli máls samkvæmt betur í stakk búin að takast á við lífið á uppbyggilegan hátt og njóta okkar í leik og starfi. Við nýtum hæfileika okkar betur og við tökum virkari þátt í samfélaginu og allt hangir þetta nú saman. Geðrækt snýr að því að styðja fólk til þess að efla og hlúa að geðheilsu sinni og þetta þurfum við auðvitað að hafa í huga alla ævi. Það er mikilvægt að fólk fái það veganesti strax í æsku. Auðvitað verðum við að horfa til rannsókna og það eru jákvæð tengsl við aðra og góðar uppeldisaðstæður sem eru meðal mikilvægustu atriða sem hafa áhrif á okkur allt okkar líf og okkar geðheilbrigði, auðvitað auk líffræðilegra, sálfræðilegra og félagslegra umhverfisþátta sem hafa áhrif á geðheilsu okkar.

Þetta eru, virðulegur forseti, þættir í daglegu lífi fólks eins og heimilisaðstæður. Það kom fram í ágætri ræðu hjá hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur, í umræðum um annað mál, sem vissulega hefur áhrif á alla samfélagslega þætti, þ.e. sóttvarnaráðstafanir og það hvernig við fórum í gegnum heimsfaraldurinn Covid-19. Uppvaxtarskilyrði barna, skólaumhverfi, menntun, atvinna og félagsleg og efnahagsleg staða, þessir áhrifaþættir eru að stórum hluta utan heilbrigðiskerfisins en það er engu að síður mikilvægt þegar um er að ræða geðheilbrigðisþjónustu, sem er í kjarna sínum undir heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðiskerfinu, að taka mið af einstaklingum í umhverfi hans og á hans forsendum. Hún kemur mjög vel fram í nýlegri skýrslu ríkisendurskoðanda þessi skörun innan velferðarkerfisins. Það er mjög mikilvægt að við náum að taka á því, að við horfum til einstaklingsins í sínu umhverfi og á hans forsendum.

Tækifæri gefast til að kenna börnum að hlúa að geðheilsu sinni á kerfisbundinn hátt í gegnum skólann sem vettvang geðræktar, forvarna og snemmbærra úrræða. Markviss kennsla í félagsfærni, hegðunarfærni og tilfinningafærni er mikilvæg undirstaða fyrir farsæld fólks og ég held að við þurfum, virðulegi forseti, að huga að þessu öllu í öllu okkar umhverfi, ekki bara í skólaumhverfinu heldur alls staðar þar sem við tökum þátt. Slík þekking og reynsla er mjög mikilvæg til að geta skilið eigin tilfinningar og hegðun, sett okkur í spor annarra og myndað farsæl tengsl við aðra, fundið eigin leið til að ná markmiðum og taka ábyrgar ákvarðanir í lífinu. Þessa færni er hægt að kenna og enn fremur er áríðandi að bjóða úrræði þegar vanda verður vart og koma þannig í veg fyrir að vandinn verði verri. Það er þessi snemmtæka íhlutun sem við nefnum svo oft, þessi snemmtæku úrræði, að við opnum á bæði leiðbeiningar og kennslu og svo að veita stuðning þegar á þarf að halda — og það snemma.

Ríkisstjórnin samþykkti árið 2020 aðgerðaáætlun um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Þessar aðgerðir ná þvert á skóla- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og sveitarfélögin. Stýrihópur um innleiðingu er að störfum og hefur forgangsraðað þeim aðgerðum sem brýnastar eru á næstu árum. Það þarf að innleiða grundvallarþætti þessarar aðgerðaáætlunar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, svo sem geðrækt sem námsgrein í aðalnámskrá, þrepaskiptan stuðning í grunnskólum landsins og samvinnu þar að lútandi við fyrsta stig heilbrigðisþjónustu.

Þá var unnin hér aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi árið 2018 og hefur verkefnastjóri hjá embætti landlæknis haft umsjón og eftirfylgni með aðgerðum sem byggjast á henni. Það verkefni er komið vel á veg en mörgum aðgerðum er þó enn ólokið. Það er lögð áhersla á að ljúka innleiðingu á þeim aðgerðum sem lúta að heilbrigðisþjónustu fyrir árið 2030. Þá er lögð sérstök áhersla á að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðlesnum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu sem auðveldar þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl og bæta og viðhalda geðheilsu og bata. Þannig munu allir landsmenn hafa tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin geðheilbrigði með aðgengi að upplýsingum í öruggu og samtengdu stafrænu umhverfi, svo sem á Heilsuveru. Leitast verður við að auka heilsulæsi fólks og gera því betur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um eigin geðheilsu og hvernig best megi hlúa að henni.

Hér hef ég farið yfir þennan fyrsta áhersluþátt. Hann er mjög víðtækur og hann er á sama tíma mjög mikilvægur. Við erum hér að lýsa sýn og stefnu, hvert við viljum fara, og vonandi berum við gæfu til að fylgja því eftir með öflugri aðgerðaáætlun.

Annar áhersluþáttur stefnu í geðheilbrigðisþjónustu lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnrýeyndu meðferð og endurhæfingu og að geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur annars staðar í velferðarþjónustu. Skortur á samþættri og heildrænni geðheilbrigðisþjónustu og skortur á starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustu eru megináskoranir í geðheilbrigðisþjónustu sem og annarri heilbrigðisþjónustu. Við höfum mikið rætt það, m.a. hér í þessum þingsal, og flestar skýrslur sem við förum í gegnum draga fram þessa áskorun. Talið er að fimmti hver Íslendingur geti átt von á því að glíma við geðheilbrigðisvanda einhvern tíma á lífsleiðinni og þurfi að leita aðstoðar hjá fagaðila í því samhengi. Það er mikilvægt að landsmenn hafi aðgengi að árangursríkri meðferð og endurhæfingu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Til að mæta kröfum um gæði, öryggi og framþróun í þjónustunni þarf að huga vel að þeim mannauði sem knýr kerfið áfram. Sem dæmi þarf mönnun að vera í samræmi við umfang og eðli þjónustu þannig að tryggja megi geðheilbrigðisþjónustu innan ásættanlegs biðtíma. Því þarf fullnægjandi þverfaglega mönnun í geðheilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar. Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölgun fagstétta þar sem nýliðun er takmörkuð. Í heilbrigðisþjónustunni vil ég taka hér fram, virðulegi forseti, talandi um áskoranir í mönnun, að þetta samspil á milli fagstétta er líka mikilvægt þegar við verðum að horfa á þjónustuna og samþættingu á þjónustu sem við þurfum að passa upp á. Þannig er lögð áhersla á að einstaklingar með persónulega reynslu sem notendur geðheilbrigðisþjónustu starfi og veiti ráðgjöf varðandi þjónustuna og miðli þannig þekkingu sinni með það að markmiði að bæta gæði þjónustunnar.

Þetta kemur seinna fram, í öðrum áhersluþáttum, en hér er lögð áhersla á samhæfingu og samvinnu í samskiptum heilbrigðis-, félags- og barnaþjónustu. Til langs tíma hefur samhæfingu á milli þjónustukerfa verið ábótavant og skort hefur á að þörfum notenda sé mætt með árangursríkum lausnum og réttu þjónustustigi sem veittar eru tímanlega. Sem dæmi má nefna að ekkert landfræðilegt samhengi er á milli heilbrigðisumdæma, sveitarfélaga og lögregluumdæma.

Hér sé ég bara að tíminn er á þrotum og ég er rétt hálfnaður með framsögu, hæstv. forseti. En ég get komið eitthvað inn í samtalið hér á seinni stigum. Þingsályktunartillagan sem fylgir fer býsna vel yfir þessa þætti. Ég ætla að fá að ljúka þessu (Forseti hringir.) með því að leggja til að að lokinni fyrri umr. verði þingsályktunartillögunni og málinu vísað til hv. velferðarnefndar.