152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir. Það gefur mér færi á að bregðast við þessu. Þetta er nefnilega mjög mikilvægt. Ég átti góðan stöðufund með samráðshópi sem er að vinna að aðgerðaáætlun í samræmi við þessa stefnumótun. Auðvitað leggjum við áherslu á að taka mið af því sem fram kemur í skýrslu ríkisendurskoðanda, sem ég tel mjög góða. Þetta er það besta sem ég hef séð hingað til þar sem er stöðumat og reynt að draga fram hvar fjárhæðirnar liggja í kerfunum okkar.

Það er tvennt sem liggur fyrir í framhaldsvinnunni og við höfum verið með mjög öflugan samráðshóp, ég leyfi mér að segja að við höfum verið með landsliðið þar. Við höfum verið með kjarnahópa og rýnihópa og í mjög breiðu samráði við þá sem gerst þekkja og notenda sömuleiðis. Það sem liggur fyrir er að taka mið af þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni — ég veit að hópurinn hefur þegar hafið vinnu við það — og taka tillit til þeirra þátta sem snúa að greiningum og fjármögnun og sköruninni og öllu því sem fram kemur og reyna að rýna það. Á sama tíma hefur þingið sagt sitt um þessa stefnu og velferðarnefnd fjallað um hana, mögulega gripið niður í stefnuna og sagt: Gerum þetta eitthvað aðeins öðruvísi, skerpum sýnina þarna, setjum inn aukamarkmið o.s.frv. Það er það tvennt fram undan sem hópurinn sem vinnur aðgerðaáætlunina horfir til frá þessum punkti í dag.