152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:40]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hinn nýskipaði samráðshópur hefur tekið til starfa og ætlar að taka mið af þeim tilmælum sem koma fram í stöðuskýrslu Ríkisendurskoðunar. Það veit á gott. Auðvitað er ég fullmeðvituð um að það er líka verið að sameina krafta með farsældaraðgerðunum, ég ætla bara að fá að kalla þær það. Við erum komin þangað sem betur fer að bæði stjórnmálamenn og auðvitað fagfólk skilur nauðsyn þess að unnið sé þvert á fagstéttir, í þverfaglegum teymum, af því að þannig fær fólk bestu geðheilbrigðisþjónustuna og það er algerlega nauðsynlegt að sinna henni með þeim hætti.

Mig langar þó að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra sem var hér áður, ekki fyrir svo löngu, formaður fjárlaganefndar og þekkir mjög vel ríkisfjármálin og að við störfum ekki aðeins eftir fjárlögum heldur einnig fjármálaáætlun til lengri tíma. Í fljótu bragði sé ég ekki að aukning til útgjalda í heilbrigðismálum sé önnur en sú sem hlýst af öldrun og/eða fjölgun þjóðarinnar. Því fýsir mig að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hyggist ekki beita sér af öllu afli innan ríkisstjórnarinnar fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins og ekki síst þess hluta sem hér er til umræðu, geðheilbrigðiskerfisins sem hefur verið bæði vanrækt og vanfjármagnað. Það verður bara að segjast eins og er. Ef hæstv. ráðherra vantar stuðning í það mál þá má finna hann hjá þingmönnum Samfylkingarinnar.