152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni yfirlýstan stuðning, ekki veitir af. Ég vil fylgja þeim orðum eftir og þeirri hvatningu, og mér finnst vera lag og tækifæri. Við höfum látið hjá líða allt of lengi í þessum tiltekna málaflokki og í þessari heilbrigðisþjónustu að bregðast við og við höfum ekki tekið nægjanlega utan um hana. En mér finnst margt hafa verið jákvætt á undangengnum misserum.

Það er hárrétt, sem hv. þingmaður dregur hér fram. Fyrir utan það sem hefur verið eyrnamerkt í geðheilsuteymin og þar sem farið hefur verið af stað með stuðning og þjónustu sálfræðinga í heilsugæslu sem fyrsta stigs þjónustu — og svo höfum við sett stöku Covid-fjármuni inn í kerfið til að styðja við geðheilsuteymin — er augljóst að við þurfum að kostnaðarmeta ærlega hvern þátt í aðgerðaáætluninni sem er til þess fallinn að við náum þeim markmiðum sem við setjum fram í þessari stefnu sem við fjöllum um.

Það mun alveg örugglega koma til þess að við þurfum að horfa á tímalínuna í því. Ég geri ráð fyrir að við getum hrint sumum þessara aðgerða úr vör þá og þegar og aðrar taka lengri tíma. Við þurfum bara að fá ærlegt kostnaðarmat þannig að hver aðgerð verði kostnaðarmetin. Út frá því verðum við síðan eðli máls samkvæmt að horfa á forgangsröðunina í meðferð fjármuna. En ég held að það sé lag og tækifæri núna til að gera enn betur í þessum mikilvæga málaflokki.