152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:44]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu. Mig langar kannski fyrst að nefna geðræktina, þ.e. að talað er um að fá geðrækt inn í aðalnámskrá skólanna. Mér finnst það vera mikið fagnaðarerindi. Margar fagstéttir, sálfræðingar og aðrir, hafa talað um að einhvers konar geðrækt þurfi að vera í aðalnámskrá, hvernig sem hún yrði útfærð. Það er mögulega verið að kenna hugræna atferlismeðferð eða aðrar gagnreyndar aðferðir sem eru mikilvægar og virka og er hægt að kenna börnum á grunnskólastigi. Það þarf að vanda vel til verka og það þarf að gera þetta vel. Ég veit að sums staðar eru skólarnir að gera mjög góða hluti og flestir eru að reyna sitt besta í að vera með einhvers konar geðrækt eða fræðslu.

Mig langaði í fyrsta lagi að spyrja: Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra það vald að setja geðrækt í námskrá? Fellur það undir hans svið? Í öðru lagi: Hver ætti að kenna þessa geðrækt og hvernig sér hæstv. ráðherra þetta fyrir sér?