152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:49]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið og ég fagna því. Þess vegna vil ég ganga úr skugga um að við getum barist fyrir þessu, að það verði barist fyrir þessu á öllum vígstöðvum. Mig langar einnig að tala um það sem segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Skortur á samþættri og heildrænni geðheilbrigðisþjónustu og skortur á starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustu eru megináskoranir í geðheilbrigðisþjónustu.“

Þetta er vandi og við vitum að það eru margar fagstéttir sem fara annað. Við vitum að kulnun og fleiri erfiðleikar á vinnumarkaði, t.d. veikindi í tengslum við það að vinna í heilbrigðisþjónustu og einnig í geðheilbrigðisþjónustu, eru mikil áskorun fyrir heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið okkar. Það sem mig langar kannski helst að koma að er: Af hverju heldur hæstv. heilbrigðisráðherra að þessi mikli skortur sé á starfsfólki í geðheilbrigðisþjónustu?