152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég hef ekki tiltæk svör varðandi síðustu spurninguna, en allt hangir þetta nú saman, varðandi ástæðu þess að það skortir fólk til starfa. Ég er ekki með neinar tölur þess efnis. Við settum á laggirnar landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu og í þeirri greiningu sem ég hef fengið að rýna í, í fjölmörgum skýrslum, er dregið fram að í öllum stéttum heilbrigðisþjónustunnar er skortur á fagfólki. Við höfum séð þetta birtast í þeirri þjónustu sem við höfum verið að setja á laggirnar, við erum alltaf að keppa um þennan takmarkaða mannauð. Ég get tekið dæmi um það þegar geðheilsuteymin voru sett á laggirnar að þá fóru fagaðilar af Landspítalanum inn í þau, þannig að það er togast á um takmarkaða auðlind. Þetta er eiginlega innan allra fagstétta heilbrigðisþjónustunnar og það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta er mikil áskorun.

Varðandi fyrri part spurningarinnar um þessa þverfaglegu sýn er bara mjög mikilvægt, og þess vegna setjum við fram þessa sýn, að tryggja að skjólstæðingar fái þessa árangursríku geðheilbrigðisþjónustu sem byggir á gagnreyndri þekkingu og klínískum leiðbeiningum þannig að við nýtum allar fagstéttir. Á þessu svið eins og svo mörgum erum við að færa okkur meira í átt að teymisvinnu og fjölbreyttri þekkingu sem er svo mikilvægt til að sinna fólki.