152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Ég ákvað að koma einkum inn á tvö mál sem tengjast þessari þingsályktunartillögu og það vill þannig til að það eru mjög sambærileg atriði og tveir hv. þingmenn komu hér inn á í andsvörum sínum. Að öðru leyti geri ég ráð fyrir að dýpka skilning minn á þessari tillögu í gegnum vinnu í velferðarnefnd og vinna þá úr þeim umsögnum sem þangað munu berast.

Fyrst vil ég koma aðeins inn á samspil þessarar stefnu við þær úttektir og þær skýrslur sem hafa verið að berast til þingsins í vetur og til stjórnvalda, og er jafnvel von á á næstu dögum, sem tengjast sérstaklega þjónustu við börn, þ.e. hvernig samspil þessara úttekta verður við stefnuna og þá aðgerðaáætlun sem kemur í kjölfarið. Að einhverju leyti kom þetta fram hér í andsvörum en ég held að þetta sé eitt af því sem velferðarnefnd þarf að velta fyrir sér og átta sig vel á, hvernig þetta mun spila saman. Eins finnst mér svolítið óljóst af textanum sem hér er, án þess að ég sé búin að lesa hann algjörlega frá orði til orðs, hvernig eigi að vinna aðgerðaáætlunina. Ég sat áður í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem það er mjög skýrt hvernig samspil stefnu og aðgerðaáætlunar er byggt upp. Það virðist vera miklu óljósara á mörgum sviðum sem tengjast heilbrigðismálum og þess vegna finnst mér áhugavert að við ræðum það í nefndinni, hvernig þetta samspil er, hver stýrir vinnunni og hvert hlutverk samráðshópsins við helstu hagsmunaaðila er. Þetta var annað af því sem mig langaði að velta upp í von um að það myndi skila sér betur inn í umræðuna í nefndinni.

Mig langaði hins vegar að koma inn á fræðsluna sem skiptir mjög miklu máli. Eins og staðan er, og hefur í raun verið um árabil, fer töluverður tími af því sem heitir lífsleikni eða umsjónartímar í stundaskrá í fræðslu sem getur fallið undir geðrækt. Þetta á við alveg frá leikskóla upp í framhaldsskóla, akkúrat um það sem segir hér: „Slík þekking og reynsla er mikilvæg til að geta skilið eigin tilfinningar og hegðun, sett sig í spor annarra og myndað farsæl tengsl við aðra, fundið eigin leiðir til að ná markmiðum sínum og tekið ábyrgar ákvarðanir í lífinu.“ Út á þetta gengur meira og minna vinna umsjónarkennara og þeirra sem kenna lífsleikni í skólum en ég tek hins vegar heils hugar undir það að mikilvægt er að skýra það betur í námskránni hvernig þetta er unnið og auka aðgengi kennara að námsefni og ýmsum verkfærum til að miðla þessari þekkingu, þó að mikið hafi gerst á undanförnum 20 til 25 árum. Þetta hefur í raun verið að byggjast upp um árabil og er að einhverju leyti komið inn í námskrá en það má bæta.

En mig langar líka að koma aðeins inn á sértækari kennslu til þeirra sem greinast með geðrænan vanda. Nú er það þannig að margir greinast með geðrænan vanda á framhaldsskólaaldri eða á þeim aldri sem flest fólk er í háskóla. Þá erum við að tala um raskanir eins og geðhvörf og ýmsar aðrar geðraskanir. Eftir því sem ég best veit er það sums staðar þannig í löndunum í kringum okkur að þegar fólk greinist með slíka röskun á unglingsaldri þá er því beinlínis boðið upp á námskeið, og jafnvel aðstandendum, til þess að átta sig á við hverju má búast, hvað fylgir slíkri greiningu og eins hvaða bjargir eru fyrir hendi, hvaða verkfæri fólk getur nýtt til að takast á við vandann. Ég held að hægt sé að gera mikið með því að auðvelda fólki að læra að lifa með sjálfu sér. Það er stærsta verkefnið sem við fáum öll í lífinu að takast á við það að vera við sjálf. Ég held að þetta sé líka lykilatriði í valdeflingu, að hver og einn læri hvaða verkfæri henta viðkomandi til að takast á við þær áskoranir sem mæta honum á lífsleiðinni.

Þetta var það tvennt sem ég vildi einkum koma inn á en svo er kannski annað sem ég vil nefna sem tengist náttúrlega þessum kafla líka, um að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga, og það er samspil við líkamlega heilsu. Það er kannski ekki síst þegar kemur á fullorðinsár að andlegri heilsu hrakar oft samhliða því að líkamlegri færni hrakar, samhliða ýmiss konar hrörnunarsjúkdómum eða sjúkdómum sem hafa á annan hátt áhrif á líkamlega getu. Ég held því að þetta sé þáttur sem skiptir ótrúlega miklu máli, þegar við horfum þvert á kerfi, að horft sé til samspils líkamlegrar og andlegrar heilsu.

Það var svo sem ekki fleira sem ég hafði hugsað mér að koma inn á núna en það er margt þarna sem ég veit að ég á eftir að setja mig betur inn í. Það mun vonandi takast í vinnu velferðarnefndar að dýpka umræðuna um þessa mikilvægu tillögu.