152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:30]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvar sitt. Já, ég efa það ekki að viljinn til góðra verka sé á bak við það sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að segja okkur hér. Ég hef einungis áhyggjur vegna þess hversu illa hefur verið staðið að því að framfylgja aðgerðaáætlun. Ég hef áhyggjur vegna þess að mikilvæg atriði, sem mér þykja koma fram í framtíðarsýninni, eru ekki í þessari tillögu til þingsályktunar. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að mikilvægir hlutir gleymist og séu ekki settir í forgrunn. Mér finnst mikilvægt að draga fram það sem ekki hefur verið talað um hér en var hluti af niðurstöðum þar sem mjög mikið samráð átti sér stað. Ég vil halda því til haga að unnið verði upp úr þeim niðurstöðum og þær verði hafðar til hliðsjónar við að búa til markmið um betri þjónustu en vitað er að því var því miður ekki sinnt nægilega vel eða fylgt nægilega vel eftir á síðasta kjörtímabili, alla vega ekki 2016–2020, eins og kom fram í skýrslu ríkisendurskoðanda. Mér er umhugað um þennan málaflokk og ég vil bara að þetta sé gert vel og að fjármagn sé tryggt og það séu allir á sama sömu blaðsíðu með það.