152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:02]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eina ferðina enn er ég komin hingað upp til þess að leita atbeina forseta við að verja virðingu þingsins sem sí og æ er í slagsmálum við Útlendingastofnun í skjóli hæstv. dómsmálaráðherra, um afhendingu gagna sem þinginu eru nauðsynleg til að afgreiða umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt. Staðan er aftur orðin sú sama og hún var áður; Útlendingastofnun neitar ítrekað að afhenda þessi gögn og gefur sig ekki. Nefndin getur ekki hafið störf án þessara gagna. Það lítur út fyrir að verði Útlendingastofnun ekki knúin til þess að afhenda þessi gögn muni ekki fleiri umsóknir verða afgreiddar á þessu ári. Við erum nýbúin að afgreiða umsóknir sem átti að afgreiða hér í desember. Vanalega eru þær afgreiddar tvisvar sinnum á þingi; í desember annars vegar og síðan að vori, og það stefnir í að fleiri umsóknir verði ekki afgreiddar vegna þess að Útlendingastofnun neitar að afhenda þinginu tilskilin gögn.

Ég óska enn og aftur eftir liðsinni forseta þingsins og upplýsingum frá honum um það hvað hægt er að gera. Ekki getum við sigað sýslumanni á og farið í aðför að Útlendingastofnun. Hvað getum við gert, herra forseti?