152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég vil bara benda á þá augljósu staðreynd að í dag er 18. maí. Samkvæmt starfsáætlun ljúkum við störfum 10. júní. Þetta er nefnilega ekki að koma upp í fyrsta sinn. Við lentum í því í lok síðasta árs að Útlendingastofnun neitaði að afhenda gögn og umsagnir um umsóknir um ríkisborgararétt. Það tók margar, margar vikur að leysa úr því. Mig langar því í ljósi dagatalsins að hvetja forseta til að banka ekki mildilega upp á hjá ráðherranum og bíða og bíða eins og gerðist hér í byrjun árs, þar sem við tókum tugi fundarstjórnarumræðna til að kalla eftir þessu máli, heldur að þetta verði leyst þannig að næst þegar við komum saman til fundar á mánudaginn næsta verði komin niðurstaða sem sé þingi og almenningi samboðin.