152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

framlög vegna barna á flótta.

[15:13]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja að það er auðvitað þannig, og ég sagði það í sjónvarpsviðtali í gær, að börn eru börn, alveg sama hvort þau koma frá Úkraínu eða Sýrlandi. Það sem um er að ræða hérna er að við höfum verið í mjög góðu sambandi og samtali við sveitarfélögin um hvernig skuli tekið utan um þá hópa sem nú eru að koma frá Úkraínu vegna þess að þeir fara ekki með beinum hætti inn í samræmda móttökukerfið sem er verið að keyra, þ.e. samræmda móttöku flóttafólks. Menn töldu að það væri talsvert líklegt að það kæmu ansi stórir hópar frá Úkraínu hingað til lands og sveitarfélögin höfðu af því áhyggjur. Þess vegna höfum við verið í samtali við sveitarfélögin, bæði í gegnum Samband sveitarfélaga og eins hefur félagsmálaráðuneytið verið í samtölum um með hvaða hætti við getum komið inn og tekið hratt utan um þessa einstaklinga nú þegar þeir eru að koma til landsins. Þannig er þetta til komið. Meðan verið er að forma móttökuna í skólakerfinu og hvernig við sjáum það fyrir okkur er þetta gert með þessum hætti.

Hins vegar er það alveg hárrétt hjá þingmanninum að það er mikilvægt að við tökum betur utan um börn á flótta og það erum við að undirbúa. Auðvitað hefur margt gerst í þessum málum á undanförnum árum og ég bendi sérstaklega á samræmda móttökukerfið sem er verið að keyra núna hér á landi sem felur það í sér að allir einstaklingar sem hingað koma, sama hvort þeir eru kvótaflóttamenn eða með öðrum hætti, fara inn í það móttökukerfi. Það var tilraunaverkefni til eins árs. Nú er samtal í gangi um framlengingu á því verkefni og fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytis er inni í því samtali. Við gerum ráð fyrir því að þar verði tekið betur á. En eins og ég segi held ég að hægt sé að segja að það sé ástæða til að gera enn betur gagnvart börnum á flótta. Það erum við að gera m.a. með (Forseti hringir.) sérstökum stýrihóp sem nýverið var settur upp og leiðir þessa vinnu í ráðuneytinu.