152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

Breiðafjarðarferjan Baldur.

[15:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil líka árétta það sem ég nefndi í ræðu minni að þörfin fyrir ferju yfir Breiðafjörð verður áfram brýn vegna þess að samgöngur þar verða áfram ótryggar, ráðherra nefndi þar Klettshálsinn sem dæmi. Að mínu mati og margra annarra er það líka vegna þess að það er þörf fyrir ferju, sérstaklega út af þungaflutningum vegna fiskeldisins og náttúrlega einnig ferðafólks.

Ég á bágt með að trúa því að það finnist ekki skip, ég verð bara að segja það. Það hefur þá ekki verið leitað víða og hvet ég ráðherrann til að fá sitt fólk í frekari ferðalög á fleiri svæði til að leita að skipi. Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að finna skip. Herjólfur gamli er í sjálfu sér alveg ágætisskip, það er líka gamalt og lúið en er þá kannski neyðarlending ef það þarf að finna annað skip fyrr.