152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svörin. Nú er það bara þannig að óháð atvinnustigi hefur það verið venjan, a.m.k. undanfarin ár, við setningu fjárlaga að atvinnuleysisbætur fylgi prósentuhækkuninni á bótum almannatrygginga. Hér er lagt fram frumvarp sem snýst öðrum þræði um að flýta hækkuninni hjá eftirlaunafólki og öryrkjum og þeim sem reiða sig á endurhæfingarlífeyri, að koma með beinum hætti til móts við þetta fólk vegna verðbólgu sem hefur ekki mælst jafn mikil síðan 2010. Algerlega óháð þessum sjónarmiðum varðandi atvinnustigið og þróun þess þá á ég svolítið erfitt með að átta mig á því hvernig það getur verið réttlætanlegt í verðbólguþróun eins og hér er verið að bregðast við að láta þennan hóp sem er án vinnu sitja eftir. Ég vil því kannski fá að spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvaða greiningar liggi að baki þessu. Hvað fær ráðherra og ríkisstjórn til að draga þá ályktun að atvinnuleitendur þurfi síður á beinum stuðningi að halda (Forseti hringir.) en öryrkjar og eftirlaunafólk?