152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að skoða einstaka tilvik en ef við skoðum tölurnar aftur í tímann höfum við skýrar niðurstöður í þessu efni, þ.e. að kaupmáttur bóta almannatrygginga tók stökk á árunum frá 2015 og sérstaklega átti það við um ellilífeyrisþega. Fyrir öryrkja var sömuleiðis þó nokkur kaupmáttaraukning og ég var að rekja það hér áðan að um síðustu áramót hækkuðum við bæturnar hjá öryrkjum um 5,6%. Nú erum við að tala um viðbótarhækkun ofan á það. Auðvitað þarf að spyrja sig að því hvort það dugi í ljósi þeirra verðbólgumælinga sem við erum með núna til að viðhalda kaupmætti að lágmarki eða helst sjá hann vaxa. Það getur verið mjög einstaklingsbundið hvort það dugar og það þyrfti að reikna fjölbreytt dæmi til þess að komast að niðurstöðu um það. En þetta er a.m.k., af hálfu ríkisstjórnarinnar, inngrip sem við höfum ekki mátt venjast að koma svona snemma inn vegna verðbólgumælinga og bregðast strax við með lagafrumvarpi til að bæta stöðu þeirra sem eru tekjulægstir.

Ég ætla að fá að vekja athygli á því að örorkubótakerfið er um 100 milljarða kerfi. 100 milljarðar eru greiddir út í örorkubætur á ári, 100 milljarðar. Það er um 10% af öllum tekjum ríkissjóðs þannig að við erum að forgangsraða fjármunum í það að gera vel við þá sem þurfa að treysta á þetta kerfi. Það höfum við verið að gera í auknum mæli á hverju ári og höfum verið að fylgja eftir kjarasamningsbundnum launahækkunum þannig að kaupmáttur hefur vaxið gríðarlega. Ég myndi bara fagna því að komast í umræðu um það hversu mjög okkur hefur tekist að auka kaupmáttinn. Það breytir því ekki að hér í dag erum við með augun á þeim sem hafa minnst á milli handanna. Við erum að leiðrétta þeirra hlut.