152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:48]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Þakka skal það sem vel er gert. Það er vissulega jákvætt að ríkisstjórnin sé að grípa til aðgerða en vandinn sem heimilin standa frammi fyrir er hins vegar stærri en svo að þær dugi til. Þann 9. maí sl. sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér áskorun eða ákall til ríkisstjórnar Íslands um að verja heimilin á þeim tímum sem við horfum til. Yfirskrift áskorunarinnar var: „Tryggjum að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana“. Þekkingin og vitneskjan um það sem gerðist eftir síðasta hrun er hvergi meiri en hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og tímabært að stjórnvöld leggi við eyrun þegar þau tala. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa upp áskorun þeirra hér því að hér inni er fólk sem þarf að heyra:

„Ríkisstjórnin kynnti í lok síðustu viku aðgerðir til handa þeim sem verst eru staddir vegna þeirrar verðbólgu sem nú geisar og fyrirsjáanlegra vaxtahækkana bankanna. Hún tók jafnframt ákvörðun um að ráðast ekki í neinar aðgerðir fyrir þá sem þurfa að greiða af húsnæðislánum.

Frá upphafi heimsfaraldursins hafa Hagsmunasamtök heimilanna kallað eftir vernd fyrir heimilin; að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldurs enda ekki á valdi einstaklinga eða fjölskyldna að hafa áhrif á afleiðingar hans. Sama á nú við um afleiðingar stríðsátaka í Úkraínu.

Þrátt fyrir að eiginfjárstaða heimilanna hafi vissulega batnað með hækkandi fasteignaverði, hafa ráðstöfunartekjur þeirra ekki hækkað að sama skapi. Eiginfjárstaða borgar enga reikninga.

Ljóst er að mörg heimili standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum erfiðleikum á næstu mánuðum, þegar greiðslubyrði lána mun hækka um tugi þúsunda. Húsnæðismarkaður hefur verið erfiður þannig að margir hafa neyðst til að spenna bogann hátt til að geta komið sér þaki yfir höfuðið.

Hagsmunasamtök heimilanna telja augljóst að nú sé tímabært að ríkisstjórnin taki pólitíska ákvörðun um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð og beina því til Ríkisstjórnar Íslands að gefa út yfirlýsingu þess efnis.

Þar sem er vilji, þar er vegur. Ríkisstjórnin hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að láta vaxtahækkanir falla af fullum þunga á heimili landsins, væntanlega í þeirra von að þær skili tilætluðum árangri. Sú von getur reynst þúsundum heimila gríðarlega dýrkeypt og í því sambandi má minna á að á flestum heimilum búa börn sem, samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eiga rétt á að búa á öruggu heimili.

Hagsmunasamtök heimilanna minna á að tugþúsundir misstu heimili sín í kjölfar bankahrunsins 2008. Slíkar hörmungar mega aldrei endurtaka sig.

Við biðjum ríkisstjórn Íslands að lýsa því yfir að þær fjölskyldur sem ekki geti staðið undir hækkandi greiðslubyrði komandi mánaða muni ekki missa heimili sín, heldur verði leitað allra leiða til að hjálpa þeim út úr þessum tímabundnu erfiðleikum svo þær geti risið á ný þegar aftur sér til sólar.

Hagsmunasamtök heimilanna búa yfir meiri og víðtækari þekkingu en nokkur annar aðili eða stofnun á Íslandi á afleiðingum hrunsins fyrir heimili og einstaklinga ásamt því sem vel var gert og því sem betur hefði mátt fara, til að koma í veg fyrir heimilismissi tugþúsunda.

Samtökin bjóða fram þekkingu sína og aðstoð við útfærslu á þeim leiðum sem hægt væri að fara til að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga utanaðkomandi aðstæðna og atburða sem þau hafa enga stjórn á. Með virku samtali stjórnvalda, lánveitenda og neytenda er vel hægt að búa svo um hnútana, samstaða og samfélagsleg ábyrgð er allt sem þarf.

Ef Ísland á að vera land tækifæranna verður að gefa heimilunum tækifæri til að dafna.

Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið!“

Svo mörg voru þau orð. Sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna frá 2017 og ein af þeim þúsundum sem misstu heimili sín í kjölfar síðasta hruns standa þessi mál mér nærri og koma við hjartað í mér svo að ekki sé sterkar kveðið að orði. Það voru a.m.k. 10.000 fjölskyldur sem misstu heimili sín á nauðungarsölum sem rekja má beint til afleiðinga hrunsins. Að auki má ekki gleyma þeim sem misstu heimili sín vegna gjaldþrota eða einhvers konar nauðasamninga við fjármálastofnanir. Engar tölur eru til um fjölda þeirra en út frá reynslu sinni og vitneskju undanfarinna ára telja hagsmunasamtökin óhætt að áætla að þær fjölskyldur hafi verið a.m.k. jafn margar eða 10.000. En af því að ekki eru til staðfestar tölur yfir það og hagsmunasamtökin setja aldrei neitt fram sem þau geta ekki 100% staðið við höfum við helmingað þá tölu niður í 5.000 heimili. Þess vegna höfum við talað um að 15.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín í kjölfar síðasta hruns og stöndum við þá tölu.

Hagsmunasamtökin þekkja betur en flestir þá örvæntingu sem fylgir þessari stöðu, bjargarleysið, reiðina og svo uppgjöfina sem oft fylgdi í kjölfarið og má m.a. sjá í mikilli aukningu á kulnun sem jafnvel hefur leitt til örorku á undanförnum árum. Ég þekki allar þessar tilfinningar sjálf og óska engum að þurfa að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum allt fram í nóvember 2019 þegar við hjónin náðum að klára okkar mál. Mér er því mikið í mun að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt endurtaki sig. Þetta er nefnilega ekki bara spurning um efnahagsmál, þetta er spurning um lýðheilsu. Þríeykið okkar góða myndi áreiðanlega taka undir það að álögð kvíði, áhyggjur og stress geti haft langvarandi áhrif á heilsu fólks. Við sem höfum annaðhvort gengið í gegnum þá ógn sem fylgir fyrst áhyggjum af heimilismissi og svo heimilismissinum sjálfum, eða höfum verið í samskiptum við þá sem gengið hafa í gegnum þetta ömurlega og erfiða ferli, vitum hversu gríðarlegt álag fylgir því og að margir hafa þegar misst heilsuna vegna þess. Það eru erfiðleikar fram undan og sennilega ekki á færi neins að koma algjörlega í veg fyrir það. En það er engu að síður hægt að milda höggið og fækka áhyggjuefnum.

Er það að létta áhyggjum af fjölskyldum landsins ekki næg ástæða til að ríkisstjórnin grípi til aðgerða? Bara sú litla aðgerð að veita einstaklingum og fjölskyldum þá fullvissu að heimilismissir sé ekki yfirvofandi myndi skipta gríðarlega miklu máli. Getum við sem samfélag ekki verið sammála um að enginn sé neinu bættari ef bankarnir fara að hirða heimilin af fjölskyldum sem ekki geta staðið í skilum vegna fordæmalausra aðstæðna sem þær bera enga sök á?

Ég hef sagt það í mörg ár, og ég stend við það, að með öðruvísi forgangsröðun hefði enginn þurfti að missa heimili sitt eftir hrun. Ef fyrst hefði verið litið til hagsmuna heimilanna og smærri fyrirtækja en ekki fjármálamarkaðarins hefðu öðruvísi ákvarðanir verið teknar og þá hefði ekki farið sem fór. Ástandið núna er allt annars eðlis en bankahrunið 2008 en það er þyngra en tárum taki að ríkisstjórnin sé með andvaraleysi að valda því að afleiðingarnar verði þær sömu fyrir heimilin.

Þann 17. apríl 2020, fyrir rúmum tveimur árum, skrifuðum við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, grein saman sem bar yfirskriftina: „Erum við öll í sama báti?“. Þar stendur, með leyfi forseta:

„En verðum við öll á sama báti þegar allt er yfirstaðið? Verðum við öll á sama báti þegar ríkisstjórnin verður búin að skrifa síðasta aðgerðartékkann?

Það hvernig við rísum upp úr erfiðleikunum sem fram undan eru ræðst af því sem við gerum í dag og þess vegna skipta áherslur stjórnvalda og hvað þau hafa í forgangi gríðarlega miklu máli.

Mun ríkisstjórnin úthluta heimilunum björgunarvesti og plássi í björgunarbátnum eða láta þau troða marvaðann í veikri von um að bankarnir bjargi þeim frá drukknun? Eða fá þau kannski sama hripleka hrákadallinn og síðast eins og skilja má af orðum forsætisráðherra?

Eftir síðasta hrun var fjármálakerfið og afkoma þess sett í algjöran forgang á kostnað heimilanna og almennings í landinu. Sú hrikalega saga verður ekki rakin hér að þessu sinni, en það er umhugsunarefni að þau fyrirtæki sem fóru jafn óvarlega og raun ber vitni á árunum fyrir hrun skuli síðan hafa hagnast gríðarlega á öllu saman, eða um nær 700 þúsund milljónir.“ — Það var fyrir tveimur árum. — „Varlega áætlað lentu 15.000 heimili í gráðugum kjafti þeirra fyrir utan alla aðra erfiðleika sem fólk gekk í gegnum að ósekju vegna rangrar forgangsröðunar stjórnvalda.

Það má velta fyrir sér að fyrst áherslurnar voru þessar þegar sekt fjármálafyrirtækjanna í því hvernig fór var augljós, hverjar áherslur stjórnvalda verði nú þegar þau eiga enga sök á ástandinu frekar en aðrir þjóðfélagsþegnar.

Sporin hræða óneitanlega og það er alveg ljóst að það sem gerðist eftir hrun má alls ekki endurtaka sig!

Bankarnir eiga að vera í sama báti og við hin.

Núverandi ríkisstjórn ber skylda til að verja heimilin og setja hagsmuni þeirra framar hagsmunum fjármálafyrirtækja.“

Þetta hefur verið fyrirsjáanlegt allan þennan tíma. Við hefðum aldrei átt að lenda í þessari stöðu. Hér á landi er allt með öðrum hætti og öðruvísi farið að málum en í öðrum löndum. Í Bretlandi er verðbólgan t.d. komin upp í 9% og breski seðlabankinn mun væntanlega hækka vexti fljótlega. En þegar verðbólgan hjá þeim var 7,8% hækkaði breski seðlabankinn stýrivextina úr 0,75% í 1%, um 0,25 prósentustig, og væntanlega má gera ráð fyrir 0,25 prósentustiga hækkun frá þeim á næstu dögum, þannig að stýrivextir í Bretlandi verði 1,25%. Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt við þá skelfingu sem íslenskum heimilum er boðið upp á. Í Bretlandi eru vextir að hækka en ekki á sambærilegan hátt og hér. Þá hafa vaxtahækkanir og verðbólga erlendis ekki bein áhrif á höfuðstól húsnæðislána og bætast því ekki ofan á jafnháa vaxtabyrði og hér. Erum við virkilega klárari en allir aðrir þegar við aukum álögur á heimili með þeim hætti sem nú er að gerast? Eða erum við bara hallari undir fjármálafyrirtækin?

Fasteignalán heimilanna eru um 2.200 milljarðar. 1% hækkun stýrivaxta færir lánveitendum því rúma 22 milljarða í auknar tekjur á ársgrundvelli. Og hvað gerum við í því? Jú, á meðan bankarnir græða þá er ríkið að blæða á móti með greiðslu húsaleigubóta og svo fara vaxtabætur áreiðanlega að aukast. Í þessum aðstæðum verður fólk jú að fá hjálp, það er gefið. En væri ekki hreinlegra að lækka einfaldlega vextina? Eða fara bara fram á að bankarnir skili fólkinu þeim vaxtalækkunum sem aldrei komu nema að litlu leyti þegar vextir Seðlabankans voru lækkaðir? Eru bankarnir í sama báti og við eða eiga þeir alltaf að græða á ástandinu? Já, hver á að greiða fyrir stöðugleika? Hækkanir á greiðslubyrði upp á tugi þúsunda á mánuði eru í kortunum. Við horfðum á meðferð bankanna á heimilunum eftir síðasta hrun og þar var enga miskunn að finna. Þó að það hrun væri alfarið bönkunum að kenna kunnu þeir ekki að skammast sín heldur fóru af fullri hörku á eftir eigin fórnarlömbum. Og nú stefnir aftur í að heimilunum verði fórnað fyrir svokallaðan stöðugleika. En fyrir hvern er sá stöðugleiki ef heimilum er fórnað fyrir hann? Er það stöðugleiki fjármagnseigenda? Erum við leita eftir því að bankarnir standi undir arðsemiskröfum?

Við verðum að velta því fyrir okkur hvernig fjölskylda, sem er kannski með 3.000–500.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði, ráði við 25–40.000 kr. hækkun sem mun bætast við lán margra bara vegna eins prósentustiga hækkunar á meginvöxtum Seðlabankans. Og athugum að fleiri vaxtahækkanir eru fyrirsjáanlegar. Á leigumarkaði eru tugþúsunda hækkanir yfirvofandi. Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna þeirra munu augljóslega ekki duga til. Og hvað verður um leigjendur sem ekki standa undir hækkandi leigu? Hvar eiga þeir að búa? Er réttlætanlegt að svipta hundruð eða þúsundir fjölskyldna heimilum sínum fyrir stöðugleika hinna sem betur eru staddir? Er réttlætanlegt að sumir gjaldi fyrir stöðugleikann með heimili sínu? Er réttlætanlegt að krefjast slíkra fórna? Það er augljóst að 3% ofan á bætur sem almennt ná ekki einu sinni 300.000 eru 5.000–10.000 kr. á mánuði fyrir skatt, og það er engan veginn nóg og 20.000 eingreiðsla barnabóta er varla upp í nös á ketti í því ástandi sem nú er. Húsaleigubætur munu vissulega hjálpa þeim sem eru á húsaleigumarkaði en engu að síður er það einungis hjá tekjulægstu öryrkjum sem þær munu ekki valda skerðingu.

Ég bið ríkisstjórnina um að gefa það út að enginn muni missa heimili sitt í þeim hremmingum sem eru fyrirsjáanlegar og stafa af aðstæðum sem venjulegt heimili hefur lítil sem engin áhrif á. Ég vil líka benda hæstv. fjármálaráðherra á að í því felst ekki inngrip í samninga eins og hann hélt fram í óundirbúnum fyrirspurnum áðan. Ég bendi á að það er ekkert jafnræði á milli aðila og ef eitthvað er inngrip í samninga er það einhliða ákvörðun um vaxtahækkanir sem skilar sér alltaf beint með auknum álögum á neytendur á meðan vaxtalækkanir gera það ekki nema að litlu leyti. Hvar er jafnræðið í því og er virkilega hægt að tala um inngrip í samninga þegar aðstöðumunur er jafn mikill og raun ber vitni? Það getur ekki verið réttlætanlegt að svipta hundruð eða þúsundir fjölskyldna heimilum sínum fyrir stöðugleika hinna. Það er ekki réttlætanlegt að sumir gjaldi fyrir stöðugleika með heimili sínu og ekki réttlætanlegt að krefjast slíkra fórna.

Það eru mannréttindi að eiga heimili og börn eiga rétt á að búa á öruggu heimili. Ríkisstjórnin þarf að sýna pólitískt hugrekki og verja heimilin. Hún þarf að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð. Fjöldi fólks nær ekki endum saman í þessu ríka landi okkar og nú stefnir í að fjöldi heimila sé á hraðri leið í þrot. Þetta er ekki fólk sem hefur reist sér hurðarás um öxl heldur fólks sem í sveita síns andlits hefur náð að koma sér þaki yfir höfuðið. Það á ekki að vera lúxus að eiga húsnæði og fjölskyldur eiga ekki að vera peð á borði auðmanna í matador en engu að síður er það raunin fyrir allt of marga. Það eru mannréttindi að eiga heimili og börn eiga rétt á að búa í öruggu heimili. Ríkisstjórnin þarf að sýna pólitískt hugrekki og taka heimilin úr matador-leik fjármagnsaflanna. Hún þarf að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð. Aðeins þannig tryggjum við heimilunum stöðugleika.