Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[17:16]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir því síðan í febrúar að gripið verði til mótvægisaðgerða til að verja viðkvæma hópa fyrir hækkandi verðbólgu og hækkandi vaxtastigi. Ég fagna því að ríkisstjórnin sé loksins að stíga einhver skref í þá áttina. Verðbólga var 6,7% í mars og 7,2% á ársgrundvelli í apríl. Hagdeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,9% núna á milli mánaða og verðbólga fari þannig upp í 7,7% í maí. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólga aukist í rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er enn sem fyrr snarhækkandi húsnæðisverð í kjölfar þess að stýrivextir voru keyrðir niður í heimsfaraldrinum, hömlum var létt af bankakerfinu og hundruðum milljarða af lánsfé dælt inn á húsnæðismarkaðinn. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 22,3% og var 22,2% í mars og raunverð íbúða hefur aldrei mælst jafnhátt og nú ef við skoðum þróunina frá aldamótum, þ.e. íbúðir hafa aldrei verið jafn dýrar í samanburði við annað vöruverð. Ofan á þessa stöðu á húsnæðismarkaði bætast nú innfluttar hækkanir, hærra eldsneytisverð, hærra matvælaverð, og þegar þetta kemur allt saman sjáum við verðbólgu sem hefur ekki mælst meiri síðan árið 2010. Það ætti engum að koma á óvart að Seðlabankinn bregðist við þessari stöðu með skörpum vaxtahækkunum. Nú í maí voru stýrivextir hækkaðir um eitt prósentustig, standa núna í 3,75%, og gætu hækkað enn frekar samkvæmt yfirlýsingum peningastefnunefndar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir því að greiðslubyrði óverðtryggðra lána geti orðið að lágmarki 49.700 kr. á hverjar 10 millj. kr. sem eru teknar að láni þegar bankarnir hafa brugðist við stýrivaxtahækkunum en fyrir ríflega ári var greiðslubyrðin um 37.300 kr. á hverjar tíu milljónir. Fyrir heimili með 40 milljóna kr. lán er þetta 50.000 kr. kostnaðarauki á mánuði á milli ára, það er meiri háttar kostnaður á skömmum tíma. Ríkisstjórnir víða í Evrópu hafa brugðist skjótt við því sem hefur verið kallað lífskjarakreppa, „cost of living crisis“. Í Bretlandi hefur fjármálaráðherrann Rishi Sunak þurft að berjast fyrir pólitísku lífi sínu fyrir að gera ekki nóg, hann gerði þó eitthvað og gerði eitthvað strax. En hér á Íslandi erum við fyrst núna, 18. maí, að tala um aðgerðapakka.

Þetta frumvarp felur vissulega í sér mikilvægt skref og ég fagna því sérstaklega að hér sé farin sú leið að beita tilfærslukerfunum frekar en að lækka skatta, eins og hæstv. matvælaráðherra í Vinstri grænum lagði til — hann talaði fyrir því að lækka virðisaukaskatt á matvæli eða fella hann niður. Ég held að það hefði verið afar ómarkviss leið til þess að ná til viðkvæmustu hópanna. Ég er feginn því að hæstv. fjármálaráðherra fer allt aðra leið sem er miklu meira í anda félagshyggju en það sem sumir hafa talað fyrir. Auðvitað get ég sem félagshyggjumaður haldið hér ræður um að gera þurfi enn meira og enn betur, að þetta sé ekki nóg o.s.frv. Ég get alveg tekið undir málflutning þess efnis. En mig langar kannski að nýta tækifærið hér til að benda á að umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgu geta bitið í skottið á sér, ef þær eru ekki fjármagnaðar. Það er alveg hægt að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgu án þess að létta umtalsvert á aðhaldsstigi opinberra fjármála og án þess að ríkisfjármálin fari að róa í aðra átt en Seðlabankinn. Samhliða stuðningsúrræðum eins og hér eru boðuð væri t.d. hægt að fara í það að skrúfa niður þensluhvetjandi skattastyrki til efri millitekjufólks eins og nær allir flokkar í stjórnarandstöðu voru sammála um en Sjálfstæðisflokkurinn og hans fylgitungl lögðust gegn í fjárlagaumræðunni rétt fyrir áramót. Það væri hægt að auka álögur á hópana sem eiga og þéna mest. Það er svo margt sem væri hægt að gera til að vega upp á móti mikilvægum en þensluhvetjandi aðgerðum fyrir viðkvæma hópa. Höfum þetta alveg á hreinu. Það er nefnilega aðhaldsstig opinberra fjármála í heild sem skiptir máli ef halda á aftur af verðbólgu.

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór yfir áðan þá er varla hægt að kalla það sérstakar mótvægisaðgerðir að flýta hækkun elli- og örorkulífeyris. Það er skrifað inn í lögin um almannatryggingar, í 69. gr., að bætur eigi að fylgja launaþróun og þær megi aldrei hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Til að fylgja 69. gr. þurfti annaðhvort að hækka lífeyrinn núna eða þá þeim mun meira í næstu fjárlögum. Ég nefndi það hér áðan að venjan við samþykkt fjárlaga hafi verið að atvinnuleysisbætur fylgi prósentuhækkun á bótum almannatrygginga. Hæstv. fjármálaráðherra brást við og sagði að það væri ekki þannig að þær hefðu alltaf fylgt þróun almannatrygginga og það er alveg rétt. En þegar ég talaði um venju í þessu samhengi var ég reyndar að vitna í a.m.k. þrjár eða fjórar greinargerðir fjárlagafrumvarpa sem fjármálaráðherra hefur sjálfur lagt fram og mælt fyrir á Alþingi á undanförnum árum. Þar er talað um þetta sem venju. Það þykir góður bragur á því að atvinnuleysisbætur fylgi þróun almannatrygginga.

Það er alveg rétt að atvinnustigið hefur farið lækkandi en það breytir því ekki að í dag eru 9.000 manns, 9.000 manneskjur á Íslandi, án vinnu og 3.000 manns sem hafa verið atvinnulaus í meira en 12 mánuði. Við skulum rifja það upp að grunnatvinnuleysisbætur eru 313.729 kr. á mánuði. Það er ekkert sérlega há fjárhæð. Þetta er fjórðungurinn af því sem við, þingmenn í þessum sal, fáum í laun á hverjum mánuði. Ætlar einhver að halda því fram að þessi hópur sé í eitthvað sérstaklega sterkri stöðu til að taka á sig hækkandi matvælaverð, stóraukinn húsnæðiskostnað, hækkandi eldsneytisverð? Nei, ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi hópur sé engu minna berskjaldaður fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum en hóparnir sem verið er að koma til móts við með beinum hætti í þessu frumvarpi. Ég sé ekki sanngirni í því að skilja þennan hóp eftir, fólk sem hefur orðið fyrir miklu tekjufalli, er oft einangrað og í viðkvæmri stöðu. Mér finnst þetta ósanngjarnt. Mér finnst það vond félagsmálapólitík að atvinnuleitendur fái ekki sams konar hækkun og eftirlaunafólk og öryrkjar.

Ég ætla rétt undir lokin, af því að ég á nokkrar mínútur eftir, að koma inn á kjaraviðræðurnar sem eru fram undan og fara fram við mjög krefjandi aðstæður. Nú er það þannig að Alþýðusamband Íslands hefur lýst því yfir að kröfur verkalýðshreyfingarinnar muni að miklu leyti ráðast af því hvort stjórnvöld séu tilbúin að efla tilfærslukerfin og auka framboð af húsnæði fyrir lágtekju- og millitekjuhópa. Þess vegna eru það vonbrigði að ríkisstjórnin boði í raun algera stöðnun í þessum efnum í þeirri fjármálaáætlun sem liggur fyrir. Það eru skammtímaaðgerðir sem ráðist er í í þessu frumvarpi og þær breyta í engu stóru myndinni. Ég hef líka áhyggjur af trúverðugleika stjórnvalda í komandi kjaraviðræðum. Nú liggur fyrir að enn hefur ekki verið brugðist að fullu við því að efna loforð sem voru gefin þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður. Á undanförnum dögum höfum við rætt hér um húsaleigulög og um starfskjaralög. Þetta eru frumvörp sem annars vegar hæstv. innviðaráðherra mælir fyrir og hins vegar hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og í báðum þessum umræðum hefur komið fram mjög hörð gagnrýni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem virðast ekki skeyta neitt um að þetta eru atriði sem aðilum vinnumarkaðarins voru gefin mjög skýr fyrirheit um fyrir örfáum árum. Í ljósi þessa hef ég satt best að segja svolitlar áhyggjur af trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í komandi kjaraviðræðum. Þar mun það skipta alveg gríðarlegu máli að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins, að þeir þurfi ekki bara að sækja sér kjarabætur í gegnum launahækkanir heldur líka með aukinni og bættri þjónustu og bættum kjörum, m.a. í gegnum tilfærslukerfin okkar og í gegnum húsnæðisstefnu stjórnvalda.

Annars vil ég segja að lokum: Það eru mjög mikilvæg skref sem eru stigin í þessu frumvarpi og ég held að við í þingflokki Samfylkingarinnar munum styðja þessi skref heils hugar og jafnvel leggja til einhverjar breytingar. Ég hlakka til að fá þetta mál inn í efnahags- og viðskiptanefnd til frekari umræðu og til umsagnar.