Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

samskiptaráðgjafar íþrótta- og æskulýðsstarfs.

581. mál
[17:53]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum með hliðsjón af reynslu og störfum samskiptaráðgjafans frá því að hann tók til starfa árið 2020.

Ef farið er yfir efnisatriði frumvarpsins er í fyrsta lagi lagt til að aukið verði við hlutverk samskiptaráðgjafa til samræmis við þá þróun sem orðið hefur á starfinu. Er það gert með nýjum tölulið þar sem mælt er fyrir um að samskiptaráðgjafi afli upplýsinga vegna mála einstaklinga sem til hans leita þar sem greint er frá atvikum eða misgerðum í tengslum við starfsemi sem fellur undir gildissvið laga þessara og að hann greiði leið slíkra mála, m.a. með útgáfu ráðgefandi álita til viðeigandi aðila. Viðeigandi aðilar í þessu sambandi geta verið þolandi, gerandi, íþróttafélag, sérsamband eða aðrir sem geta átt hagsmuna að gæta af ráðgjöf samskiptaráðgjafa.

Í öðru lagi, um efnisatriði frumvarpsins, er lagt til að tveimur málsgreinum verði bætt við 6. gr. laganna. Í fyrri málsgreininni er mælt fyrir um að samskiptaráðgjafa verði heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga.

Í 2. mgr. er sérstaklega fjallað um heimild samskiptaráðgjafa til að miðla upplýsingum til þriðja aðila. Í samræmi við gildissvið laganna er miðlunin bundin við þá sem sjá um starfsemi sem lýtur að gildissviði laganna.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að allur vafi er tekinn af um að réttur til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga nær ekki til samskiptaráðgjafa. Litið hefur verið svo á að þau gögn sem samskiptaráðgjafi hefur undir höndum séu þess eðlis að einkahagsmunir vegi þyngra en réttur almennings á því að vita um þau.

Í fjórða lagi er mælt fyrir um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998, en með þeirri breytingu er leitast við að leiðrétta tiltekið misræmi á milli 1. og 2. mgr. 16. gr. íþróttalaga.

Lagt er til að frumvarpið taki þegar gildi verði það samþykkt.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég tel að í frumvarpinu felist mikilvæg atriði til að viðhalda og efla enn frekar það þarfa starf sem unnið er hjá samskiptaráðgjafa. Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.