152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

endurgreiðslur vegna búsetuskerðinga.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Til að ég gæti nákvæmni í mínu máli þá finnst mér mikilvægt að það komi fram að málið snerist í raun og veru um að það skorti lagastoð fyrir reglugerðinni en ekki að hún hafi verið brotin. Hv. þingmaður ræðir hér um kostnað og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá félags- og vinnumarkaðsráðherra þá kostar það 2,5 milljarða að greiða fjögur ár aftur í tímann. Það er mikilvægt að þeim tölum sé haldið til haga. Það er mikilvægt í þessu máli að hæstv. ráðherra brást strax við, reglugerðinni var strax breytt, það var strax gefið út að greitt yrði aftur í tímann, en ég held að við megum heldur ekki missa sjónar á því að stóra verkefnið núna, og ég held að við hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson séum sammála um það, það er að ná fram breytingu á sjálfu kerfinu til framtíðar. Það er auðvitað verkefnið sem við eigum að vera að horfa núna á því það er svo löngu tímabært að ná fram réttlátara og gagnsærra kerfi fyrir þennan hóp sem ég held að ríkisstjórnin hafi sýnt, af því hv. þingmaður nefnir það, bæði á síðasta kjörtímabili með því að draga úr skerðingum, þeim fyrirætlunum sem hafa birst í fjármálaáætlun núna varðandi aukið framboð á (Forseti hringir.) sveigjanlegum störfum, sem og með nýjustu aðgerðum sem miða að því að bæta þeim þá stöðu sem uppi er vegna verðbólgunnar. Við höfum sannarlega (Forseti hringir.) sinnt þessum hópi en ég tel að það séu málefnaleg rök fyrir þessum fjórum árum sem hæstv. ráðherra hefur kynnt.