152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

Hallormsstaðaskóli.

[15:42]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þarna er um að ræða mjög mikilvægt nám í áföngum sem mikill áhugi er á víða um land. Hallormsstaðaskóli hlaut viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi 2021 og kennir, eins og hv. þingmaður vísar í, á fjórða hæfnisþrepi sem er skilgreint sem viðbótarnám við framhaldsskóla. Slík námslok teljast ekki vera á háskólastigi. Dæmi um námslok á þessu fjórða hæfnisþrepi er t.d. nám iðnmeistara og fleiri aðila. Hvernig ákvörðun er tekin um að skóli sem er að kenna á framhaldsskólastigi færist yfir á háskólastig, hver farvegurinn er, er kannski tvíþætt. Ef um er að ræða færslu náms á háskólastig, hvaða skilyrði þarf að uppfylla, eru auðvitað í skólakerfinu ýmis dæmi um að nám hafi færst frá framhaldsskólastigi yfir á háskólastig. Við getum nefnt lögreglunámið sem margir þekkja, nám tannsmiða o.fl. Það stendur t.d. yfir greining á því hvort færa eigi nám brunavarða og bráðatækna á háskólastig. Rök fyrir slíkum breytingum hafa jafnan verið þau að störfin hafi þróast yfir í að vera flóknari og krefjist af þeim sökum aukins undirbúnings.

Ef sömu rök eiga við um það nám sem boðið er upp á í Hallormsstaðaskóla væri e.t.v. líka einfaldara að taka upp samstarf við viðurkenndan háskóla um viðurkenningu námsins til frekara náms á háskólastigi. Dæmi eru um að slíkt samstarf hafi gengið mjög vel. Ég nefni sem dæmi námsframboð við Háskólann á Akureyri fyrir sjúkraliða. Samstarf háskólanna í slíku getur verið mjög gott veganesti í byrjun.

Síðan eru það reglur ráðherra sem getur veitt stofnunum viðurkenningu til að (Forseti hringir.) starfa á háskólastigi að undangenginni úttekt óháðra erlendra sérfræðinga. Ég þarf eiginlega að fara yfir þau skilyrði sem skólinn (Forseti hringir.) þarf síðan að uppfylla ef hann ætlar að vera sjálfstæður háskóli í seinna svari.