152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

Hallormsstaðaskóli.

[15:46]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Skólinn heyrir núna undir mennta- og barnamálaráðherra. En varðandi viðurkenningu háskóla þá þarf að fara fram mat óháðra erlendra aðila ef skólinn óskar eftir því að verða háskóli, sem hefur ekki komið inn á borð til mín svo ég viti, að hann óski eftir að fara í þær úttektir sem greinir í 3. gr. laga um háskóla, sem er að óháðir erlendir sérfræðingar gera úttektarskýrslu. Þá er margt tekið inn í: Það er auðvitað fræðileg þekking og hæfni, stoðkerfi háskóla fyrir fræðasamfélag, styrkleiki stofnunarinnar og staða fræðasviðs í erlendu samhengi, stjórnskipan, hæfisskilyrði starfsmanna, gæðakerfi stofnunarinnar, og þannig mætti áfram telja. Eitt af skilyrðunum er líka að honum sé stjórnað af rektor sem lokið hefur doktorsprófi, en ég og ráðuneyti mitt birtum handbók og matsramma fyrir viðurkenningu háskóla til þess að auka gagnsæi til þess að stofnanir sem hafa hug á, eins og hv. þingmaður segir að skólinn hafi mögulega, að starfa sem háskólar geti séð hvaða kröfur eru gerðar fyrir því. Þannig að handbókin nýtist við þessa úttekt og eins þarf að skoða það hvort skólinn sjálfur hafi hug á að uppfylla öll þau skilyrði.