Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

569. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel ástæðu til að bregðast við þessu og tel að við séum í raun og veru komin af stað með viðbragðið í þessari endurskoðun á reglunum sem ég vísaði til. Það er heilmikið verkefni fyrir stjórnkerfið að taka við öllum þessum endurgreiðslubeiðnum. Við erum hérna að ræða um rannsókna- og þróunarfjárfestingar sem, eins og fram hefur komið, geta numið rúmlega 10 milljörðum. Það væri óðs manns æði að ætla að fara yfir hvert og eitt tilvik og kafa ofan í hvert og eitt útgjaldatilefni og spyrja sig: Er þetta hluti af rannsóknakostnaðinum og þróunarkostnaðinum eða er þetta eitthvað annað? Þessir veikleikar hafa komið fram í framkvæmdinni og við höfum haft af þeim nokkrar áhyggjur, sérstaklega vegna þess hversu hratt þetta hefur vaxið.

Við höfum líka séð viðleitni til þess að hámarka ávinninginn af reglunum með því að fyrirtæki virðast hafa skipt sér upp í tvennt og sótt um sem tveir óskyldir aðilar og þar með notið góðs af hámarksfjárhæðunum báðum megin. Þannig kemur kerfið betur út fyrir einn og sama aðilann ef hann sækir um með tveimur umsóknum undir sitthvorri kennitölunni. Fyrir þetta höfum við reyndar tekið með breytingu sem þegar hefur tekið gildi. En það er ekkert óvænt í því að þegar svona rík ívilnun á í hlut, eða svona háar fjárhæðir og miklir hagsmunir eru undir, að leitað sé allra leiða til að lágmarka skattgreiðslurnar. Það á ekki að koma neinum á óvart. Kerfið hefur vaxið mjög hratt á skömmum tíma og því var fyllilega tímabært að fara í saumana á því eins og verið er að gera í dag. Við vonumst til þess að fá skýrslu um niðurstöður þeirrar úttektar í september.