152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

peningamarkaðssjóðir.

570. mál
[19:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um peningamarkaðssjóði. Frumvarpið kveður á um innleiðingu í íslenskan rétt á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2017/1131, um peningamarkaðssjóði.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, viðurlög og setningu stjórnvaldsfyrirmæla. Markmiðið með reglugerðinni er að stuðla að fjármálastöðugleika og auka fjárfestavernd. Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að forða tjóni fyrir þá fjárfesta sem óska seint innlausnar úr peningamarkaðssjóði, sérstaklega þegar óróleiki er á mörkuðum. Með reglugerðinni er horft til þess að tryggja að seljanleiki sjóðanna sé nægjanlegur til að geta mætt kröfum fjárfesta um innlausnir og að sjóðirnir geti staðið við loforð um stöðugt verð þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. Í reglugerðinni er fjallað um skilyrði fyrir stofnsetningu peningamarkaðssjóða og skilyrði fyrir rekstri og markaðssetningu slíkra sjóða.

Meginefni reglugerðarinnar er í fyrsta lagi að kveðið er á um að reglurnar gildi um sjóði sem annað hvort eru verðbréfasjóðir eða sérhæfðir sjóðir og þeir fjárfesta í skammtímaeignum og hafa sem markmið að bjóða ávöxtun í samræmi við peningamarkaðsvexti eða ávöxtun sem varðveitir virði fjárfestingarinnar.

Í öðru lagi skal rekstraraðili peningamarkaðssjóðs vera með starfsleyfi sem annað hvort rekstrarfélag verðbréfasjóðs eða rekstraraðili sérhæfðra sjóða.

Í þriðja lagi er kveðið á um að peningamarkaðssjóðir skuli hafa hlotið staðfestingu sem slíkir og gildir sú staðfesting í öllum aðildarríkjum EES.

Í fjórða lagi skal reka peningamarkaðssjóði á einu af þeim þremur formum sem reglugerðin kveður á um. Mismunandi reglur gilda í vissum tilvikum um hverja tegund fyrir sig, svo sem að því er varðar verðmat eigna og útreikning á innra virði. Peningamarkaðssjóðir eru svo annaðhvort skammtíma peningamarkaðssjóðir eða hefðbundnir og gilda sérstakar reglur um áhættustýringu eftir því hvor tegundin sjóður er.

Í fimmta lagi er kveðið á um heimilar fjárfestingar peningamarkaðssjóða og einnig hvernig samsetning eignasafns skuli vera og áhættudreifing.

Þá eru í sjötta lagi ákvæði um áhættustýringu og verðmat, mat á virði hluta í peningamarkaðssjóðum og innlausnir.

Í sjöunda lagi er kveðið á um að peningamarkaðssjóðir skuli ekki njóta ytri stuðnings, en í því felst bæði beinn og óbeinn stuðningur frá þriðja aðila sem er ætlaður eða hefur í raun þau áhrif að tryggja seljanleika sjóðs eða til að koma jafnvægi á innra virði hluta í sjóði.

Í áttunda lagi er svo kveðið á um að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin haldi úti opinberum miðlægum gagnagrunni með upplýsingum um m.a. alla peningamarkaðssjóði sem hafa fengið staðfestingu, tegundir sjóðanna, rekstraraðila þeirra og lögbær yfirvöld.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, þannig að ákvæði þeirra laga um peningamarkaðssjóði falli brott. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, þess efnis að starfsemi evrópskra áhættufjármagnssjóða, evrópskra félagslegra framtakssjóða, evrópskra langtímafjárfestingarsjóða og peningamarkaðssjóða falli undir eftirlit samkvæmt ákvæðum laganna.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu koma einungis til með að hafa áhrif á þá rekstraraðila sem ákveða að bjóða upp á peningamarkaðssjóði. Ekki er vitað í sjálfu sér hver eftirspurnin eftir stofnun nýrra peningamarkaðssjóða á grundvelli löggjafarinnar kemur til með að verða. Þá er erfitt að áætla hvað margir sjóðir eru nú þegar í rekstri hér á landi sem koma til með að falla undir reglurnar. Auknar skyldur bætast við rekstraraðila sjóða sem koma til með að hafa peningamarkaðssjóði í rekstri, svo sem í tengslum við umsókn um staðfestingu fyrir sjóðina og eftirlit með fjárfestingarstefnu þeirra, áhættustýringu, verðmat eigna o.fl. Gert er ráð fyrir auknum umsvifum Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar, en talið er að áhrif innleiðingar reglugerðarinnar og undirgerða hennar rúmist innan núverandi rekstraráætlana Fjármálaeftirlitsins og áhrif á ríkissjóð verði því engin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.