Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

peningamarkaðssjóðir.

570. mál
[19:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp sem er lögfesting á reglugerð frá EES um peningamarkaðssjóði sem við ræddum hér fyrr í vor. Eins og segir í greinargerðinni með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Á árunum 2007–2008 kom í ljós að ekki var alltaf hægt að standa við loforð um innlausnarskyldu og um að virði hlutdeildarskírteina myndi halda sér og leiddi það í mörgum tilvikum til mikilla innlausna af hálfu fjárfesta. Með ákvæðum reglugerðarinnar er leitast við að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig.“

Margir settu einmitt fjármuni í peningamarkaðssjóði, oft til skammtímafjárfestingar, sér í lagi vegna þess að þessir sjóðir voru taldir mjög öruggir en eins og við sáum því miður í október 2008 var þetta ekki eins öruggt og menn héldu, nema auðvitað fyrir þá aðila sem fréttu af því að hlutirnir væru kannski ekki alveg að fara í rétta átt og gátu leyst út inneignir sínar á dögunum og vikunum áður en allt hrundi.

Peningamarkaðssjóðir virka þannig að þeir veita skammtímafjárfestingar, oft með því að kaupa skuldabréf af hinu opinbera og af öðrum lögaðilum. Þetta er oft gert í stuttan tíma og ávöxtunin er kannski ekki há en a.m.k. aðeins hærri heldur en ef maður geymir peningana undir koddanum, nema auðvitað þegar kemur hrun.

Það er mjög mikilvægt að þetta frumvarp gangi í gegn vegna þess að það tryggir meiri fjárhagslegan stöðugleika og aukna vernd þeirra sem fjárfesta í slíkum peningamarkaðssjóðum. Sérstaklega er tekið á því í frumvarpinu að passa upp á að ef álag er mikið á mörkuðum, eins og gerðist einmitt í október 2008, sé það ekki þannig að þeir sem síðast frétta af því að það sé að koma hrun, og vilja taka peningana sína út úr þessum peningamarkaðssjóðum, tapi meiru heldur en þeir sem fengu að vita í gegnum vini og vandamenn að þarna væri kannski eitthvað að fara að gerast. Þetta er gert með því að horfa á það að seljanleiki sjóða sé nægilegur til að hægt sé að leysa út.

En það er ekki bara að við séum að tryggja betra regluverk í kringum peningamarkaðssjóðina, sem við hefðum kannski átt að gera dálítið fyrr miðað við hvernig þeir enduðu í hruninu, heldur hefur innleiðing á þessari ákveðnu reglugerð og þetta frumvarp þau áhrif að íslenskum aðilum gefst kostur á að starfrækja og markaðssetja sjóði sína út fyrir landsteinana og til landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og öfugt, þ.e. evrópskir peningamarkaðssjóðir geta markaðssett slíka sjóði hér á landi. Þetta opnar auðvitað fyrir að við gætum fengið aðgang að fleiri peningamarkaðssjóðum en hefur verið mögulegt hingað til, jafnvel á öðrum vöxtum og öðru gengi. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem veitir ekki af inn í það samkeppnisumhverfi sem er á bankamarkaði hérna.

Það er ánægjulegt að þarna sé komið þetta regluverk og mögulegt sé að leggja á stjórnvaldssektir og annað ef ekki er farið eftir þeim reglum sem koma fram í frumvarpinu. Það er von mín að þetta frumvarp, rétt eins og reglugerðin sem því tengist, fái fljóta meðferð í þinginu vegna þess að hér er svo sannarlega um réttarbót og aukna neytendavernd að ræða fyrir fólk sem einungis vill finna öruggan stað fyrir peningana sína.