Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[20:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það vekur athygli þegar maður skoðar þetta mál að eitt af því sem þetta frumvarp á að gera er að fella tilvísun í Bálfarafélag Íslands úr lögunum á sama tíma og það félag hefur verið endurvakið til þess að vinna í rauninni að sömu markmiðum og það gerði frá árinu 1934 þegar það var upphaflega stofnað. Nema núna er öldin önnur, rétt tæpri öld síðar, vegna þess að Bálfarafélag Íslands á sínum tíma ól af sér bálfarastofuna sem rekin er á forsendum þjóðkirkjunnar á meðan Bálfarafélagið ætlar núna að vinna að því að stofnuð verði óháð athafnarými og bálstofa. Þetta óháða athafnarými skiptir ekki minna máli vegna þess að þegar kemur að stærri áföngum í lífi fólks, hvort sem það er nafngjöf, gifting, útför eða hvað það er, þá hefur þjóðkirkjan mikið samkeppnisforskot í krafti þess hvernig ríkið hefur staðið á bak við hana áratugum saman, ja öldum saman, þannig að þau rými sem eru til, sem standa til boða innan kirkjunnar eru miklu fleiri og hentugri til athafna en nokkuð annað á opnum markaði. Fyrir fólk sem ekki tengist neinu trúfélagi getur það verið þrautin þyngri að finna einhvern veislusal sem hentar fyrir útför eða hvað það er sem fólk þarf að panta sal undir. Vegur þetta gegn einkaframtakinu? Já, mögulega. En þetta viðheldur í það minnsta líka því rosalega forskoti sem eitt trúfélag hefur á kostnað allra annarra trúfélaga og allra þeirra sem ekki vilja tilheyra trúfélögum.