Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[20:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, sá hluti þessa frumvarps sem snýr að Bálfarafélagi Íslands er dálítið undarlegur vegna þess að ef við tálgum þetta frumvarp niður í það sem þarf að gera þá þarf að færa ábyrgð á reikningshaldi Kirkjugarðasjóðs frá skrifstofu biskups vegna þess að það er ábending frá Ríkisendurskoðun. Þannig næst fram betri stjórnsýsla. Hitt virkar dálítið eins og verið sé að nýta ferðina til að gera eitthvað allt annað. Það er eðlilegt að við spyrjum okkur hverju það sæti. En svo er líka hægt að velta fyrir sér: Af hverju er verið að gera þessa einu breytingu varðandi reikningshald Kirkjugarðasjóðs eftir ábendingu Ríkisendurskoðunar á sama tíma og það liggur jafn skýrt fyrir að ríkislögreglustjóri hefur ítrekað bent á að lög um trúar- og lífsskoðunarfélög séu meingölluð að því leytinu að þau séu bara galopin umfram annað rekstrarform félaga á Íslandi fyrir peningaþvætti? Við erum með svo holótta löggjöf þegar kemur að trúar- og lífsskoðunarfélögum að ríkislögreglustjóri setti, fyrst fyrir tveimur til þremur árum, í áhættumatsskýrslu sína að þessu yrði að breyta. Af hverju er það ekki í þessu frumvarpi líka? Af hverju er ferðin ekki nýtt til að laga gríðarlegan veikleika á peningaþvættisvörnum á Íslandi á sama tíma og reikningshaldi skylds félags er komið í betra horf en ferðin nýtt til þess einhvern veginn að hnjóða í einkaaðila sem vilja bjóða upp á bálfaraþjónustu? Það er von að maður spyrji.