152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í fréttum RÚV fyrir ekki svo löngu kom fram að þörf fyrir legurými árið 2040 verði helmingi meiri en nýr Landspítali við Hringbraut geti annað. Þetta er samkvæmt skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið birti. Bent var á að blikur væru á lofti vegna stríðsátaka sem gætu tafið uppbygginguna enn frekar. Þessi hörmulegu átök hafa einnig áhrif á aðrar fyrirætlanir, svo sem byggingu hjúkrunarheimila. Hér á landinu okkar fagra hristist jörð á Reykjanesi. Auðvitað vonar maður að ekkert slæmt gerist en það er alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig. Hvað ef samgöngur raskast, bæði í lofti og á jörðu niðri? Erum við undirbúin undir það? Eru sjúkrahúsin utan suðvesturhornsins þannig útbúin og heilbrigðisstofnanir í heild sinni tilbúnar? Við erum einnig með varasjúkrahús á Akureyri. Uppfyllir það skilyrði um að vera varasjúkrahús Landspítala? Hvað með flugvellina? Geta flugvellirnir tekið við aukinni flugumferð? Við erum með skilgreinda varaflugvelli úti á landi. Standa þeir undir nafni? Hvaða skilyrði þurfa þeir að uppfylla svo allt sé eins og það á að vera?

Hæstv. forseti. Þetta eru margar og mikilvægar spurningar sem við þurfum að fá svör við því að varla er hægt að leggja meira á heilbrigðisstarfsfólk eins og staðan er í dag. Það er ekki endalaust hægt að treysta á velvilja þeirra. Ég hvet ríkisstjórnina til að upplýsa þjóðina vel og vandlega um það hvert planið er. Þetta er ekki eitthvað sem reddast, það er mun meira undir en það.