Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna. Fyrir stuttu síðan voru það umferðarslys. Rétt fyrir helgi ók ég austur fyrir fjall og á Hellisheiðinni er skilti Samgöngustofu sem sýnir tölu látinna í umferðarslysum á árinu. Núna um mitt árið er talan í tveimur. Í þessum sama bíltúr, þegar ég var unglingur, kveið ég því að við kæmum að skiltinu og því hvort talan hefði hækkað sem hún hafði langoftast gert. Stundum fór hún upp í 20–30 manns. Seinna kom að þeim tímapunkti að samfélagið hafnaði því að það væri náttúrulögmál að við misstum svona margt fólk í fyrirbyggjanlegum slysum. Umferðaröryggi var tekið föstum tökum með skilgreindu fjármagni, mannafla og skilgreindum markmiðum. Og það virkaði, slysum og dauðsföllum í umferðinni snarfækkaði.

Forseti. Fjölmörg sjálfsvíg eru fyrirbyggjanleg. Þrátt fyrir það hefur ekki orðið sambærileg jákvæð þróun þegar kemur að þeim. Þar hefur staðan lítið sem ekkert breyst í áratugi. Á ári hverju missum við um 40 manns á þennan hátt á Íslandi og þar á meðal börn. Í samþykktri aðgerðaáætlun frá 2018 var lagt til að sett yrði á stofn ný þekkingar- og þróunarmiðstöð áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna að fyrirmynd sambærilegra stofnana erlendis. Sérfræðingar töldu slíka miðstöð forsendu þess að vel tækist að klára þær aðgerðir sem áætlunin kveður á um. Með henni væri fé og mannafli settur í málaflokkinn.

Forseti. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða og legg til að áætlunin verði núna endurskoðuð, hún er komin til ára sinna, og allar aðgerðir kostnaðargreindar, þeim forgangsraðað og í þær sett fjármagn til frambúðar og að ráðherra setji á stofn þessa miðstöð sem lofað var og er grunnforsenda (Forseti hringir.) fyrir því að draga úr tíðni sjálfsvíga á Íslandi.