Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín ýmsa gesti. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið. Allt er það rakið í nefndaráliti meiri hlutans og vísa ég í það skjal varðandi gestakomur og umsagnir. Ég vil bæta því við að auk þess bárust nefndinni minnisblöð frá innviðaráðuneyti og minnisblað auk gagna frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Til upprifjunar er frumvarpinu ætlað að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins sem fyrirséð er að hækkandi verðbólga bitnar verst á. Frumvarpið felur í sér þríþættar breytingar sem miða að framangreindu markmiði. Í fyrsta lagi er um að ræða greiðslu sérstaks barnabótaauka að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga árið 2022. Í öðru lagi er um að ræða hækkun á bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð um 3% frá 1. júní 2022. Að lokum er um að ræða hækkun á húsnæðisbótum um 10% frá 1. júní 2022 og afturvirka hækkun frítekjumarka húsnæðisbóta um 3% frá 1. janúar 2022. Þetta eru meginatriði frumvarpsins.

Varðandi umfjöllun nefndarinnar telur meiri hlutinn rétt að bregðast við nokkrum athugasemdum í umsögnum sem nefndinni bárust við umfjöllun málsins en annars eru umsagnir aðgengilegar á vef Alþingis.

Að mati meiri hlutans er mikilvægt að gæta að því að auka ekki enn frekar á þenslu í samfélaginu heldur hafa aðgerðir markvissar og tryggja að þær nái til hópa fólks sem eru viðkvæmir fyrir hækkunum, sem raktar verða til verðbólgu, líkt og gert er með frumvarpinu. Meiri hlutinn beinir því til stjórnvalda að fylgjast vel með framvindu efnahagsmála og áhrifa á þann hóp fólks sem er tekjulægstur og berskjaldaðastur fyrir vaxtahækkunum og verðbólgu.

Við umfjöllun nefndarinnar var vakin athygli á mögulegum áhrifum vaxandi verðbólgu á ungt fólk sem nýlega hefur fest kaup á fasteign. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána og lána með breytilegum vöxtum geti hækkað í hækkandi vaxtaumhverfi. Ungt og efnalítið fólk geti illa varið sig fyrir hækkandi greiðslubyrði fasteignalána. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fjármála- og efnahagsráðuneytið fylgist sérstaklega með áhrifum verðbólgu á þann hóp fólks og grípi til ráðstafana ef þurfa þykir.

Öryrkjabandalagið bendir á að fyrirhuguð lagabreyting um að 11% skerðingarhlutfall gildi frá 1. janúar 2022 sé á skjön við ákvæði laga nr. 75/2016, sem kveði á um 9% skerðingarhlutfall, og feli því í reynd í sér skerðingu afturvirkt.

Meiri hlutinn bendir á að í 4. tölulið 1. mgr. 30. gr. laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að kveða nánar á um frítekjumörk og skerðingarhlutfall skv. 17. gr. laganna. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið er ívilnandi og felur ekki í sér afturvirka skerðingu.

Eitt af því sem nefndarmenn gerðu ítrekað við gestakomur í þessu máli var að spyrja og baktryggja og fá eins greinargóðar upplýsingar og við gætum um það að enginn ætti að verða fyrir óvæntri afturvirkri skerðingu vegna þessara laga. Nefndin telur sig hafa fengið fullvissu um að svo eigi ekki að geta verið. Mér finnst mikilvægt að taka fram að nefndin hafi spurt út í þetta vegna þess að það er alltaf þetta sem við hræðumst þegar verið er að gera breytingar á lögum um almannatryggingar sem eiga að vera ívilnandi, að þá gerist eitthvað óvænt. Við teljum okkur hafa leitað af okkur allan vafa um að slíkt geti leynst í þessu frumvarpi.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á 2. mgr. b-liðar 3. gr. frumvarpsins, þess efnis að endurreikningur og leiðrétting húsnæðisbóta skuli vera til bráðabirgða fyrir tímabilið 1. janúar til 31. maí 2022. Telur meiri hlutinn að breytingin sé til þess fallin að taka af allan vafa um að lokauppgjör húsnæðisbóta skuli fara fram með hefðbundnum hætti í samræmi við 25. og 26. gr. laga um húsnæðisbætur þegar skattframtöl fyrir árið 2022 liggja fyrir á komandi ári.

Í umsögn Tryggingastofnunar er lagt til að kveðið verði á um í frumvarpinu að þær hækkanir sem lagðar eru til með frumvarpinu komi til framkvæmda og útgreiðslu í síðasta lagi 1. júlí næstkomandi. Ítrekar stofnunin þó að verði frumvarpið að lögum sé stefnt að því að greiða hækkanir svo fljótt sem auðið er. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og leggur til breytingu á 2. gr. frumvarpsins, þess efnis að greiðslur samkvæmt greininni komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2022, en áfram verði þó miðað við að hækkunin gildi frá 1. júní 2022. Um er að ræða framkvæmdalegt atriði sem vikið er að í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að greiðslur verði afgreiddar eins fljótt og auðið er.

Öll vinna nefndarinnar hefur í raun miðað að því að afgreiða þetta mál hratt, bæði í gegnum nefndarvinnuna en eins í gegnum þingið, en fara þó ítarlega yfir öll ákvæði frumvarpsins einmitt til þess að hægt sé að greiða út sem allra fyrst. Ég held ég geti leyft mér að segja það hér að um þetta hefur verið alger eining innan nefndarinnar. Ég vil því ítreka að þó svo að hér sé verið að setja það inn að greiðslur eigi að koma til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí er mikilvægt að hraða greiðslum eins og frekast er auðið. Mín von er sú að þetta komi til útgreiðslu mjög fljótlega, verði lögin samþykkt. Það liggur þó fyrir að það verður ekki fyrir mánaðamót, en að það verði þá í júnímánuði.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif en þær er hægt að skoða frekar í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með málinu en ég hef gert grein fyrir breytingum sem hafa einhver efnisleg áhrif.

Undir þetta nefndarálit skrifa, ásamt þeirri sem hér stendur, og er framsögumaður, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Helgi Héðinsson, Guðmundur Ingi Kristinsson og Óli Björn Kárason. Ég hlakka til umræðunnar hér í dag um þetta mál og bind vonir við að okkur takist að gera þetta að lögum seinna í dag.