Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru 9.000 manns á Íslandi án vinnu. Þar af hafa 3.000 manns verið á atvinnuleysisskrá í meira en 12 mánuði. Grunnatvinnuleysisbætur eru 313.729 kr. á mánuði. Þetta er fjórðungurinn af því sem við hérna inni fáum í laun, í þingfararkaup. Ég vil spyrja hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, framsögumann þessa máls, hvort hún muni ekki örugglega styðja breytingartillögu okkar í minni hlutanum um að grunnatvinnuleysisbætur fylgi þróun almannatrygginga, sem sagt að komið verði í veg fyrir að þessi hópur sitji sérstaklega eftir og þá með uppfærslu á þeirri fjárhæð sem mælt er fyrir um í lögum og hefur ekki hreyfst núna í mörg ár vegna þess að fjárhæðinni hefur verið breytt í reglugerðum. Ef svo er ekki þá vil ég gjarnan heyra hvernig hv. þingmaður réttlætir það fyrir sjálfri sér að láta atvinnuleysisbætur rýrna að raunvirði næstu mánuði.