Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framsöguna. Við hljótum að sameinast um þessar mótvægisaðgerðir sem eru til að létta aðeins byrðar viðkvæmustu hópanna nú þegar þessi landsins forni fjandi er farinn að láta á sér kræla aftur. Ég velti aðeins fyrir mér þessum hraða á þessu máli og sporin hræða. Við höfum gert mistök þegar við höfum verið að flýta okkur um of og þessi viðvörunarorð Öryrkjabandalagsins vegna skerðingarhlutfallsins, breytinganna þar, um að þær brjóti mögulega í bága við lög — mig langar til að spyrja hv. þingmann bara svo ég skilji við áframhaldandi afgreiðslu málsins, af hverju það mál er hér inni í þessum mótvægisaðgerðapakka, litla pakka. Ég sé ekki að þetta geri annað en að flækja málið, það kallar fram þessi viðvörunarorð sem ekki er ljóst hvort er ástæða fyrir. Er þetta nauðsynlegt í þessu máli eða er þetta frekar eins og ég skildi hv. þingmann í öðru andsvari, svona de facto og það verður að nota tækifærið og laga þetta? Af því að ef svo er finnst mér að við ættum að kippa þessu út og klára málið til að vera alveg örugg, klára það öðruvísi.