Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svar þingmanns. Ég verð nú að segja að eftir að hafa setið í velferðarnefnd þá á ég því ekki að venjast að Öryrkjabandalagið misskilji hluti, sérstaklega ekki þegar kemur að þeirra kjarnamálum. Og ef þau gjalda varhuga við því að hér sé mögulega verið að fara á skjön við lög þá finnst mér mikilvægt að við hlustum. Ef staðreyndin er sú að það hefur verið 11% skerðingarhlutfall þrátt fyrir ákvæði laga þá myndi það væntanlega vera svo áfram þó svo að ekki væri farið í þessa breytingu hér og við hefðum þá tíma til að breyta aftur. Erum við að flýta okkur um of? Þá er ég ekki að meina varðandi inntakið, þ.e. mótvægisaðgerðirnar sjálfar, sannarlega ekki. En það er óneitanlega ljóður á þessu ágæta máli ef það er rökstuddur grunur um að við förum ekki nákvæmlega eftir laganna hljóðan í þessu og sköpum einhverja erfiðleika. En ég heyri að hv. framsögumaður er algerlega sannfærð um að við séum hér með belti og axlabönd og ég ætla bara að leyfa mér að fara fram á að það sé það minnsta sem við erum með í þessu máli. Aftur verð ég að segja að við þekkjum það hér í þingstörfum undanfarið að sporin hræða. Við höfum ítrekað verið með breytingar sem gerðar hafa verið í samstöðu þings vegna óvæntra uppákoma, en það verður nú seint sagt að verðbólgudraugurinn sé óvænt uppákoma. Engu að síður er þessi hraði á málinu núna. Þannig ég spyr bara til að fá endanlega áréttingu á því að við getum örugglega greitt þessu máli atkvæði, að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að okkur hafi orðið fótaskortur á svellinu.