Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég sagði í framsögu minni þá spurðu þingmenn ítrekað út í það hvort eitthvað gæti leynst í þessu sem gæti leitt til afturvirkra skerðinga og þau svör sem við fengum frá ráðuneytinu voru að það ætti að vera tryggt að svo væri ekki. En ég er alveg sammála því að maður er alltaf hræddur þegar verið er að gera breytingu á einum stað að hún hafi óvæntar afleiðingar á öðrum stað. Nefndin kafaði sérstaklega ofan í þetta varðandi þá framkvæmd að það hefur verið 11% skerðingarhlutfall og það er með lagastoð í 30. gr. laga um húsnæðisbætur. Þannig að já, við teljum okkur eins og hægt er vera búin að skoða það að þetta leiði ekki til einhverra óvæntra skerðinga þannig að ég tel að nefndin hafi vandað sig í þessu. Svo má hins vegar skoða lögin frekar en það er annað mál.