Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. En við erum eiginlega bara að biðja um að þessar hækkanir almennt verði í samræmi við verðbólgu og að það verði ekki kjaragliðnun eina ferðina enn hjá þessum hópi. Ég held að við séum ekki að biðja um neitt rosalega mikið og þetta eru ekki neinar rosalegar upphæðir. En þarna erum við þó að stoppa þessa kjaragliðnun. Ég verð að segja að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við verðum að taka þetta almannatryggingakerfi til gjörsamlegrar endurskoðunar. En ég óttast það þegar þessi ríkisstjórn er að tala um að gera þetta að þeir ætli sér ekki að leggja neinn pening í það. Þetta kerfi verður ekki endurskoðað og verður það aldrei almennilegt nema það verði einfaldað þannig að hver einasti aðili sem þarf að lifa í því skilji það og það þarf að setja inn töluverða fjármuni þannig að fólk geti lifað með reisn í því.