Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir minnihlutaáliti sem ég stend að ásamt Guðbrandi Einarssyni, fulltrúa Viðreisnar, og Birni Leví Gunnarssyni, fulltrúa Pírata, hv. þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd. Við í minni hlutanum styðjum þau skref sem stigin eru með þessu frumvarpi enda höfum við kallað látlaust eftir því síðan í febrúar að brugðist verði við aukinni verðbólgu og vaxtahækkunum með mótvægisaðgerðum í þágu tekjulægri heimila, eins og ríkisstjórnir víða í Evrópu hafa gert. Í þessu samhengi vil ég vísa t.d. til þingsályktunartillögu um mótvægisaðgerðir sem við lögðum fram þann 8. febrúar sl. og hv. þm. Kristrún Frostadóttir, 1. flutningsmaður málsins, mælti fyrir þann 10. mars. Slíkar mótvægisaðgerðir eru löngu tímabærar. Þær hefðu átt að koma fyrr. Það er ekki í anda vandaðrar lagasetningar að aðgerðapakkinn sé afgreiddur hérna undir tímapressu mörgum mánuðum eftir að vandinn varð ljós. Auk þess verður að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það að hópar sem verða fyrir miklum búsifjum vegna hækkandi greiðslubyrði og verðlags séu skildir eftir og að ríkisstjórnin sýni enga viðleitni til að slá á þenslu með aðgerðum á tekjuhlið ríkisfjármálanna. Atvinnuleitendur eru á meðal þessara hópa. Þetta er fólk sem orðið hefur fyrir miklu tekjufalli með einna lægstu mánaðartekjurnar hér á landi og er engu minna berskjaldað fyrir hækkun matvæla og eldsneytisverðs og auknum húsnæðiskostnaði en þeir hópar sem komið er til móts við með beinum hætti í þessu frumvarpi. Það hafa engin skynsamleg rök verið færð fyrir því að skilja atvinnuleitendur eftir í þessum aðgerðapakka, engin skynsamleg rök. Verkalýðshreyfingin hefur talað einu máli og kallað eftir því að bætur atvinnuleysistrygginga hækki til jafns við bætur almannatrygginga en stjórnarmeirihlutinn virðist eindregið á móti því. Það hryggir mig.

Í fjárlögum undanfarinna ára hafa atvinnuleysisbætur alla jafna fylgt prósentuhækkun bóta almannatrygginga og laga um félagslega aðstoð. Fjallað hefur verið um þetta sem venju í greinargerðum fjárlagafrumvarpa en nú er svo komið að til stendur að flýta lögbundinni hækkun bóta almannatrygginga vegna verðbólgunnar en láta hins vegar bætur atvinnuleysistrygginga rýrna að raunvirði næstu mánuði. Það er mjög vond velferðarpólitík. Samtök launafólks hafa mótmælt þessu harðlega í umsögnum og við í minni hlutanum tökum heils hugar undir þá gagnrýni.

Af því að við ræddum hér áðan um fjárhæðir og samanburð milli þeirra þá tók ég það saman að grunnatvinnuleysisbætur eru í dag 313.729 kr. Til samanburðar er t.d. framfærsluuppbót öryrkja sem býr einn 351.920 kr. og ellilífeyrir með heimilisuppbót er 348.588 kr. Þetta bil mun breikka enn frekar með frumvarpinu sem hér er verið að mæla fyrir. En með þeim breytingum sem minni hlutinn leggur til yrði fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta þokað aðeins í áttina að þeim fjárhæðum sem ég nefndi hérna. Þannig yrðu grunnatvinnuleysisbæturnar 323.141 kr. Fjárhæðin yrði skrifuð inn í lög um atvinnuleysistryggingar. Fjárhæðin þar hefur verið óbreytt í mörg ár og atvinnuleysisbætur í staðinn verið hækkaðar með reglugerðum, sem er auðvitað besta mál. En hér getur Alþingi tekið mjög afgerandi afstöðu um að hækka atvinnuleysisbætur til jafns við aðrar hækkanir sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi. Það verður fróðlegt að fylgjast með þeirri atkvæðagreiðslu seinna í dag, hvernig fólk ætlar að stilla sér upp.

Mig langar að víkja að öðrum hópi sem ekki er komið til móts við í þessu frumvarpi. Það er ungt fólk og fyrstu kaupendur, fólkið sem komst inn á fasteignamarkað á tímum sögulega lágra vaxta. Förum aðeins yfir nokkrar staðreyndir. Verðbólga mældist 7,2% í apríl. Hún hefur ekki mælst hærri síðan 2010 og samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að hún aukist í rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Megindrifkraftur verðbólgunnar er sem fyrr hækkandi húsnæðisverð sem hefur rokið upp eftir að stýrivextir voru keyrðir niður í heimsfaraldri og hömlum var létt af útlánagetu bankakerfisins. Frá byrjun ársins 2020 til loka ársins 2021 jukust húsnæðisskuldir heimilanna um 450 milljarða. Þetta eru rúmlega 200 milljarðar kr. á ári, tvöfaldur taktur miðað við árin þar á undan. Á sama tíma var samdráttur í nettó útlánum til fyrirtækja, sér í lagi til byggingargeirans, auk þess sem sóttvarnaaðgerðir settu strik í reikninginn á byggingarstöðum. Allt kynnti þetta undir ójafnvægi á húsnæðismarkaði. Samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í maí hefur íbúðaverð hækkað um 22,3% á landinu öllu undanfarna 12 mánuði miðað við vísitölu paraðra viðskipta.

Stór hluti þeirra sem tóku lán á lágum vöxtum er ungt fólk, það sjáum við bara á tölum, og aldrei hafa eins margir fyrstu kaupendur komið inn á íbúðamarkað og á Covid-tímanum. Það var um tíma þriðjungur þeirra sem voru á íbúðamarkaði. Í þessum hópi eru líka tekjulágir einstaklingar sem komust í gegnum greiðslumat á tímum sögulega lágra vaxta. Þetta er fólkið sem ber hitann og þungann af hröðum breytingum á vaxtastigi. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans hefur kostnaður fólks vegna eigin húsnæðis hækkað um 17,2% á tímabilinu apríl 2021 til apríl 2022. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir því að í júní verði mánaðarleg greiðslubyrði óverðtryggðra lána að lágmarki 49.700 kr. á hverjar 10 milljónir sem teknar eru að láni. Til samanburðar var greiðslubyrðin u.þ.b. 37.300 kr. á hverja 10 milljónir sem teknar voru að láni þegar stýrivextir voru í lágmarki fyrir ríflega ári síðan. Þannig spáir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun því að greiðslubyrðin verði þriðjungi hærri í næsta mánuði en hún var fyrir ári. Fyrir heimili með 50 millj. kr. lán er þetta 62.000 kr. kostnaðarauki á mánuði sem bætist þá ofan á hækkandi matvæla- og eldsneytisverð o.s.frv. Í þessu frumvarpi er í rauninni engar beinar aðgerðir að finna fyrir þennan hóp, fólk í eigin húsnæði sem sér nú lánin sín rjúka upp. Eitthvað af þessu fólki fær auðvitað barnabótaauka en hann mun bara duga skammt miðað við þær búsifjar sem ég er að lýsa hérna.

Þetta verður líka að skoðast í samhengi við þær breytingar sem orðið hafa á tilfærslukerfunum undanfarinn áratug, m.a. vaxtabótakerfinu sem er varla svipur hjá sjón lengur og hjálpar ekki nýjum fasteignakaupendum á sama hátt og það gerði fyrir tíu árum vegna þess að eignaskerðingarmörkin hafa ekki þróast í takti við eignaverð. Í dag skerðast vaxtabætur við 5 millj. kr. í eigin fé, 8 millj. kr. hjá hjónum, og rétturinn til vaxtabóta fellur niður við 8 millj. kr. í eigin fé, 12,8 milljónir hjá hjónum. Þannig falla t.d. bæturnar niður við 24% eignarhlut í meðalíbúð í Reykjavík hjá pari, 90 m² að stærð, og hjá einstaklingi falla þau niður við 16% eignarhlut. Þetta er vegna þess að eignaskerðingarmörkin hafa staðið í stað síðan 2018 og á sama tímabili hafa átt sér stað alveg svakalegar fasteignaverðshækkanir. Samhliða þessari veikingu á vaxtabótakerfinu hafa fjármunir færst til þeirra sem geta notað séreignarsparnað til inngreiðslu á lánin sín. Stærstur hluti þessa skattafsláttar vegna séreignarsparnaðar, rúmlega 30 milljarðar kr., hefur nýst tekjuhæstu 30% landsmanna og helmingurinn af þessum skattafslætti hefur runnið til tekjuhæstu 10%. Þetta er ójafnaðarstefna í húsnæðisstuðningi og við eigum að sameinast um að vinda ofan af henni.

Þegar efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um þetta mál á harðahlaupum undanfarna daga var óskað eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu með mati á kostnaðinum af því að hækka öll eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins um 25%, þoka þeim aðeins í átt að þeirri hækkun fasteignaverðs sem hefur átt sér stað á allra síðustu árum, í rauninni bara á síðastliðnu ári t.d. hérna á höfuðborgarsvæðinu. Við óskuðum eftir því að fá greiningu á því hvernig ábatinn myndi dreifast á tekjuhópa. Samkvæmt mati ráðuneytisins, sem byggist á álagningarskrá Skattsins vegna tekjuársins 2020, myndu útgjöld vegna vaxtabóta hækka um 450 millj. kr. við þetta. Meðalhækkunin hjá þeim sem fá vaxtabætur yrði 25.300 kr. Ráðuneytið áætlaði að í þeim hópi myndi fjölga um 2.800 einstaklinga. Mestu áhrifin yrðu hjá einhleypu fólki, einstæðum foreldrum sem hafa lágan tekjustofn og verða því ekki fyrir miklum skerðingum vegna tekna en hafa eignastofn sem er nálægt efri mörkum eignaskerðingarinnar. Heilt yfir myndu fleiri hjón og aðilar í sambúð njóta góðs af breytingunni en hækkunin væri mest í tekjutíundum 6 og 7, sem kemur kannski ekkert á óvart. Talið er að 55% af hækkuninni myndi koma í hlut kvenna.

Það var mjög mikilvægt að fá þetta fram og auðvitað væri húsnæðisstuðningskerfið hérna jafnara ef vaxtabótakerfinu hefði verið haldið á lífi í stað þess að fara þessa séreignarsparnaðarleið, skattafsláttarleið fyrir tekjuhærri. Svo eru auðvitað ýmsir ágallar á vaxtabótakerfinu sem væri hægt að ræða lengi um, en ég held að þetta sé eitthvað sem við verðum að einhenda okkur í hér á Alþingi, að laga þetta húsnæðistuðningskerfi.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins er varað við því að gera breytingar á fjárhæðar- og skerðingarmörkum vaxtabóta á miðju ári í stað þess að hækkanir séu lögfestar í lok tekjuárs vegna komandi álagningarárs. Fjárhæð vaxtagjalda, tekjur og eignir, hafa áhrif á fjárhæð vaxtabóta og á álagningarseðli kemur fram hvaða forsendur liggja að baki útreikningi hjá hverjum og einum og áhrif þeirra á niðurstöður útreiknings, segir ráðuneytið. Álagning ársins 2022 vegna tekjuársins 2021 er lokið og er því ákveðinn ómöguleiki fyrir því að hækka fjárhæðir og skerðingarmörk vaxtabóta á miðju ári, segir í minnisblaðinu. Minni hlutinn skorar engu að síður á ríkisstjórnina að hefja strax undirbúning að aðgerðum til að verja fyrstu kaupendur og ungt fólk í eigin húsnæði fyrir áhrifum vaxtahækkana. Auðvitað er stefnt að því að taka hér upp heildstætt húsnæðisstuðningskerfi sem nær bæði til þeirra sem leigja og þeirra sem búa í eigin húsnæði. En á meðan slíkt kerfi hefur ekki verið tekið upp þá er það bagalegt hvernig vaxtabótakerfið hefur verið látið drabbast niður. Það hefði munað heilmikið um það fyrir fullt af fólki að fá vaxtabætur, fólk sem ekki er komið til móts við í þessu frumvarpi.

Vegna þessara framkvæmdalegu þátta og vegna þess að stefnt er að heildstæðu kerfi, sem verður vonandi betur útfært en gamla vaxtabótakerfið, sáum við ekki ástæðu til að leggja fram breytingartillögu um það núna en við skorum á ríkisstjórnina að hefja strax undirbúning að mótvægisaðgerðum fyrir þennan hóp. Auk þess þarf að grípa tafarlaust til aðgerða til að bæta réttarstöðu leigjenda, verja þá fyrir óhóflegri hækkun leigufjárhæðar og leiðrétta það ójafnvægi sem myndast hefur á leigumarkaði. Hækkun húsnæðisbóta í þessu frumvarpi er ágæt út af fyrir sig og auðvitað styðjum við hana en hún dugar skammt ef ekki verða gerðar grundvallarbreytingar á umgjörð og regluverki leigumarkaðarins. Það er bara þannig.

Stjórnmálin geta ekki látið Seðlabanka Íslands það einum eftir að sporna gegn verðbólgunni. Verkefni okkar er að tryggja að sveiflur í efnahagslífinu komi ekki harkalega niður á viðkvæmum hópum. Það er hægt að gera þetta án þess að létta á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna í heild. Samhliða svona mótvægisaðgerðum til að verja tekjulægri hópa væri t.d. hægt að draga úr þensluhvetjandi skattstyrkjum sem hafa verið innleiddir fyrir aðallega efri millitekjufólk, það væri hægt að grípa til aðgerða til að auka álögur á fólkið sem á mest, er með hæstu tekjurnar í íslensku samfélagi.

Auðvitað er það þannig að veikleikarnir í undirliggjandi afkomu ríkissjóðs hafa verið ljósir frá því löngu áður en heimsfaraldurinn skall á. Fjármálaráð hefur margsinnis bent á þetta. Þessari þróun þarf að snúa við. Við þurfum að styrkja tekjuhlið ríkisins svo sjálfbærni opinberra fjármála sé tryggð til langs tíma. Þar ættum við að horfa sérstaklega til skattlagningar fjármagns, eigna, hæstu tekna og líka til sanngjarnra auðlindagjalda og styrkingar á tekjustofnum sveitarfélaga. Við slíka tekjuöflun verður líka að líta til þess gríðarlega ójafnvægis sem skapast hefur milli atvinnugreina eftir að heimsfaraldurinn skall á. Sumir geirar efnahagslífsins hafa borið mjög þungar byrðar á meðan afkoma fyrirtækja hefur í sumum öðrum greinum verið sögulega há. Viðskiptabankarnir þrír skiluðu rúmlega 80 milljarða hagnaði í fyrra. Þar nutu þeir auðvitað góðs af aðgerðum ríkisins stuðningsaðgerðum upp á tugi milljarða sem voru veittar til að forða fyrirtækjum í ferðaþjónustu og fleiri greinum frá gjaldþroti, sem hefði einmitt valdið bönkunum gríðarlegu útlánatapi. Þessi mikli hagnaður bankanna stafar m.a. af þessu, að ríkið steig þarna inn, kom fyrirtækjum til bjargar og fyrirbyggði þannig útlánatap. Við getum horft til fleiri atvinnugreina. Bandalag háskólamanna bendir á að samanlagður rekstrarafgangur í sjávarútvegi, byggingastarfsemi, fjármálastarfsemi, fasteignaviðskiptum og heild- og smásöluverslun hafi verið rúmlega 900 milljarðar á árinu 2020–2021 á verðlagi ársins 2021, sem er 120 milljarða aukning frá árunum 2018 og 2019. Rekstrarafgangur í heild- og smásöluverslun, fasteignaviðskiptum, byggingastarfsemi og mannvirkjagerð var sá mesti á öldinni mælt í milljörðum króna á föstu verðlagi, og rekstrarafgangur í fasteignaviðskiptum var 392 milljarðar á verðlagi ársins 2021 eða 6,2% af vergri landsframleiðslu, sem er það langhæsta á öldinni.

Allt þetta ójafnvægi milli atvinnugreina held ég að sé eitthvað sem við þurfum svolítið að horfa til þegar við förum að snúa okkur að tekjuöflun, sem er nauðsynleg bæði til að koma tekjugrunni ríkisins á réttan kjöl og til að sporna gegn þenslu núna til skemmri tíma.

Eins og áður segir þá styðjum við, fulltrúar minni hlutans; ég, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson og hv. þm. Guðbrandur Einarsson, þetta frumvarp en höfum lagt fram breytingartillögu sem við hvetjum eindregið til að verði samþykkt, og gott ef það er ekki önnur breytingartillaga frá okkur sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson mun fara yfir hér á eftir.