Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Byrjum á því sem spurt var um hérna áðan, það var ekki komið fram varðandi breytingartillöguna. Þetta gerist allt svo hratt o.s.frv., sem er einkennandi fyrir það sem ég er að benda á að sé vandamál með allt sem gerist hérna, að þegar hlutirnir eru gerðir hratt þá verða mistök. Ég bað sérstaklega um það að orðin „og skerðingarhlutfallið“ í 4. tölulið 30. gr., myndu falla brott, ekki varðandi frítekjumarkið heldur bara varðandi skerðingarhlutfallið. Breytingartillaga mín á að snúast um það en ekki að fella niður 4. töluliðinn eins og hann leggur sig. Það er nokkuð sem ég vænti að verði bara lagað. Þetta er klassískt þegar það er alltaf verið að reyna að vinna allt á fleygiferð. En við fylgjumst vel með, vonandi, þegar það kemur upp.

Á þeim nótum langar mig til að benda á vandamál sem er að koma í ljós núna, 2022, eftir villu í lagasetningu árið 2016. Réttara sagt voru þó nokkuð margar villur gerðar við lagasetningu árið 2016, undir lok kjörtímabilsins þá, sem hafa allar haft áhrif á — það var dómur sem féll nýlega um 7–8 milljarða eða eitthvað svoleiðis, af því að það var vísað í rangar greinar, að það mátti ekki skerða tekjur fólks. Það voru lög sem voru löguð tiltölulega nýlega, það féll dómur í kjölfarið um að það hefði verið óheimilt, af því að lagatextinn sagði annað, að skerða tekjur fólks, ellilífeyrisþega og öryrkja, minnir mig að það hafi verið, eða hvort það voru bara tekjur öryrkja, líklega bara öryrkja.

Það er önnur villa sem snýst um það að lífeyrir ellilífeyrisþega er ekki talinn sem atvinnutekjur þrátt fyrir að hann eigi að vera talinn það af því að það vantar undanþáguheimild fyrir því í lögum um almannatryggingar. Það var líka villa sem var gerð 2016, sem ekki er búið að laga enn þá og enginn bekennir að sé vandamál. Það er meira að segja farið alla leið til umboðsmanns Alþingis sem segir mjög skýrt að það hafi klárlega verið ásetningur þingsins að lífeyristekjur væru undanþegnar því að vera flokkaðar sem atvinnutekjur. En lagatextinn er annar. Lagatextinn leyfir það ekki og það er hann sem skiptir máli. Og það er það sem við komumst að í þessu máli, að þegar frumvarpið um húsnæðisbætur er lagt fram árið 2016 þá eru þar tvær greinar, annars vegar reglugerðarheimildin í 30. gr., þar sem í 4. tölulið er talað um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga og þá varðandi frítekjumark og skerðingarhlutfall samkvæmt 17. gr. þar sem segir: Ráðherra er jafnframt heimilt að breyta skerðingarhlutfalli samkvæmt 1. mgr. með reglugerð.

Hins vegar gerir Alþingi nefndarálit þar sem segir:

„Í 3. málsl. 4. mgr. 17. gr. segir að ráðherra geti breytt skerðingarhlutfalli skv. 1. mgr. greinarinnar með reglugerð. Hækkun á hlutfallinu mundi skerða bætur til þeirra sem hefðu tekjur yfir frítekjumörkum. Nefndin telur óæskilegt að veita ráðherra slíka heimild án nánari afmörkunar og leggur því til að málsliðurinn falli brott.“

Það var gert. Alþingi samþykkti að fella þennan lið brott úr 17. gr. en samhliða voru felld burt orðin „og skerðingarhlutfall“ í 30. gr. Þar koma til mistök þingsins af því að hlutirnir voru unnir svo hratt. Þetta var strokað út úr 17. gr., æðislegt, frábært. Allir voru ánægðir með sjálfa sig. En af því að verið var að vinna hlutina svo hratt þá yfirsást fólki að það væri í reglugerðarheimild að setja reglugerð um frítekjumörk og skerðingarhlutfall í 30. gr. Þá er spurning, alveg mjög stór spurning hvort það dugi fyrir ráðherra til að geta sett reglugerð um skerðingarhlutfallið eða ekki þegar það er klárlega vilji Alþingis, eins og t.d. með lífeyristekjur ellilífeyrisþega, að þær séu flokkaðar sem atvinnutekjur — eða ekki flokkaðar sem atvinnutekjur. Það er þá klárlega vilji þingsins og spurning hvort ráðherra megi gera þetta. Ef ráðherra horfir mjög blint á lögin, bara á lagatextann — lagatextinn skiptir máli — þá lítur út fyrir að hann hafi þessa heimild, en þingið var gríðarlega ósammála því. Það voru þingmenn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks í velferðarnefnd sem lögðu til að þessi heimild færi úr lögunum.

Núna er verið að vekja athygli þingsins á þessum mistökum. Þá myndi ég áætla að það sé spurning sem liggur fyrir framan okkur, þ.e. hvort við eigum að leyfa þessari reglugerðarheimild, mögulegu reglugerðarheimild, að vera eða ekki. Því legg ég til í breytingartillögu að einungis orðin „og skerðingarhlutfall“ falli burt úr því 30. gr., en ekki orðið „frítekjumark“, við skulum hafa það algerlega á hreinu. Ég býst við því að einhverjir séu að hlaupa fram og til baka og reyna að prenta upp þessa breytingartillögu. En ég var hins vegar ekki búinn að fá hana í hendurnar, ég kom því til til þeirra sem sjá um að setja þetta upp, og bara munnlega af því að það er allt að gerast svo hratt, þannig að ég skil vel að það fari svona aðeins í handaskolum, að svona gerist. En þetta er dæmi um hvernig mistök gerast hérna, dæmi um að það á einmitt ekki að gera breytingar hratt.

Nú myndi kannski einhver vilja segja að það sé ekki gott að gera þá þessa breytingu, að fella burt skerðingarhlutfallið með svona skömmum fyrirvara. En við skulum hafa það í huga að þingið er búið að glíma við þá spurningu áður. Það er búið að taka afstöðu til þess hvort þessi reglugerðarheimild eigi að vera til staðar. Afleiðingarnar af því að ráðherra, sem var þá hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason, árið 2019, horfir á þessi lög og segir: Hey, ég get breytt hérna skerðingarhlutfallinu — og hann breytir því úr 9 í 11%. Það eru skerðingar fyrir þá sem fá þessar bætur, tvímælalaust, það er 2% munur þarna á þar sem skerðingin, miðað við tekjur þeirra umfram frítekjumarkið, eykst um 2%. Þannig að það er fyrr sem fólk hættir að fá þessar bætur, húsnæðisbætur. Það telur alveg saman. Ég held að það séu um 16.000 manns eða eitthvað svoleiðis sem falla undir þetta, ef ég man rétt. Það eru einhverjar upphæðir, við vitum ekki hvaða upphæðir það eru, aftur af því að verið er að vinna svo hratt að við getum ekki fengið að vita svona útreikninga með svona skömmum fyrirvara. En að mínu mati þá skiptir það ekki máli. Það skiptir nefnilega ekki máli af því að lögin kveða á um 9%. Það var vilji þingsins. Lögin kveða á um að ráðherra eigi ekki að hafa þessa reglugerðarheimild. Þar af leiðandi er það þannig núna þegar verið er að benda þinginu á þetta: Bíddu, eigum við þá í alvörunni að hafa reglugerðarheimildina? Og svarið ætti tvímælalaust að vera nei.

Spurningin um það síðan hvort prósentan fyrir árið 2022, sem sagt frumvarp til laga sem við erum að glíma við núna — þar er sagt að þessi prósenta eigi að vera 11%, en hérna er þingið aftur að taka ákvörðun um það að hafa prósentuna 11% en ekki 9% eins og hún er í núverandi lögum. Það er líka áhugaverð spurning út af fyrir sig. Er þingið að kvitta undir að það sem ráðherrar gerðu með reglugerðarbreytingu árið 2020 sé rétt? Mér finnst það áhugaverð spurning. Ég veit ekki hvort það er rétt. Ég lít svo á að þingið hafi viljað hafa þetta skerðingarhlutfall 9% og að ráðherra hafi ekki haft reglugerðarheimild og eina leiðin til að breyta skerðingarhlutfallinu úr 9% í eitthvað annað sé með frumvarpi til laga.

Þetta hérna er vissulega frumvarp til laga og með bráðabirgðaákvæði til aðeins þessa árs um að þessi skerðing verði 11% en ekki 9%. En mér finnst það ekki endilega málefnaleg breyting miðað við þann hraða sem þetta mál fer í gegnum þingið á. Ég myndi vilja miða við gildi núverandi laga og þá mögulega reglugerðar, hún er mögulega í gildi, það er mögulega heimild fyrir ráðherra að breyta þessu þrátt fyrir vilja þingsins, alveg stjarnfræðilega galið. Að sjálfsögðu ætti það að vera þannig að þegar ráðherra lítur yfir þetta hérna: Heyrðu, getum við breytt skerðingarhlutfallinu? Já, við vorum hérna með frumvarp árið 2016 og þá vildum við geta breytt þessu en þingið sagði nei. En það er samt enn þá í lögunum smá útúrsnúningur sem við getum nýtt okkur. Ég held að ráðherra hafi ekki nýtt það þannig, ég held jafnvel bara að það hafi verið alger yfirsjón, skortur á stofnanaminni eða eitthvað svoleiðis, hefur bara gleymt því að þeir lögðu fram frumvarp um að ráðherra gæti breytt þessu með reglugerð en að þingið hafi hafnað því. Ég held að þau hafi einfaldlega bara gleymt því, sem er slæmt út af fyrir sig. Því að ef ráðherra hefði vitað af því að þingið hefði sagt: Nei, þú mátt ekki breyta þessu með reglugerð, þá væri það mjög alvarlegt ef ráðherra hefði samt gert það, sérstaklega án þess að láta þingið vita. Þess vegna er hér um tvöföld mistök að ræða. Það eru annars vegar mistök hjá þinginu að gleyma að taka burt þessi orð, „og skerðingarhlutfall“, sem var tvímælalaust ætlun þingsins, og hins vegar mistök hjá ráðherra að setja reglugerðina án þess að vita í rauninni sögu málsins. Það tel ég vera nokkuð alvarlegt. Ég hef ekki mikla samúð með mistökum þegar hlutir gerast hratt af því að ég myndi frekar vilja að hlutirnir myndu ekki hreyfast svona hratt og þegar það gerist að það sé þá einmitt frekar varðandi einfalda hluti heldur en flókna hluti. Þessir flóknu hlutir sem hefur verið breytt hratt hafa kostað okkur milljarða. Bara þessi breyting, eins og ég vísaði í áðan, það voru einhverjir 2,5 milljarðar á mánuði, það voru 5 milljarðar þegar það var komið að því, þegar loksins var kominn dómur var það komið upp í 6–7 milljarða með öllu. Það að lífeyristekjur eldri borgara teljist ekki sem atvinnutekjur kostar líklega einhverja 10 milljarða á ári, það kæmi mér ekki á óvart. Það er ónákvæm tala, ég ætla ekki að bera meiri ábyrgð á því en að það sé einhver rassvasareikningur miðað við einhverjar fyrirspurnir sem við vorum að klóra okkur í gegnum. Það er margt óljóst í því.

Núna liggur hins vegar þessi spurning fyrir okkur í þinginu og mér finnst mikilvægt að við tökum afstöðu til þess hvort ráðherra sé heimilt að breyta skerðingarhlutfalli með reglugerð eða ekki. Því að þingið gerði það áður og sagði nei. Þessir flokkar sem voru í velferðarnefnd þá sögðu nei. Ég skil þá afstöðu mjög vel. Ég er sammála þeirri afstöðu. Mér finnst þetta of mikil heimild fyrir ráðherra, að hann geti breytt þessu skerðingarhlutfalli.

Möguleikarnir sem ég sé í þessu eru þeir að ef þessi heimild ráðherra stenst samkvæmt 30. gr. þá getum við einfaldlega sagt: Þú hefur ekki þessa heimild lengur en við samþykkjum samt þessa tímabundnu bráðabirgðaheimild til ársins 2022 með þá annaðhvort 9 eða 11% skerðingarmörkum. Þá gildir það fyrir árið 2022, bráðabirgðaákvæðið dettur úr gildi í lok ársins og fellur þá aftur niður í 9% eins og það er í lögunum. Og ef ráðherra vill einhverja aðra skerðingarprósentu þá verður hann að mæta í þingið í haust með frumvarp um það eins og hann átti alltaf að gera samkvæmt vilja þingsins.

Ég legg fram þessa breytingartillögu með hv. þingmönnum Jóhanni Páli Jóhannssyni, Guðbrandi Einarssyni og Guðmundi Inga Kristinssyni. Ef meiri hluta þingsins finnst að ráðherra eigi að halda þessari reglugerðarheimild einhverra hluta vegna þá held ég að — ég skil ekki af hverju það ætti að vera, í alvöru, nema kannski með einhverjum formála um að þetta verði skoðað og velferðarnefnd taki sig til og leggi fram eitthvert mál strax eða strax í haust til að afnema reglugerðarheimildina, af því að ráðherra mun aldrei gera það, hann hefur enga engan hvata til að leggja fram frumvarp til að taka burt reglugerðarheimild sína. Ráðherra vildi hafa þessa reglugerðarheimild til að byrja með og þingið sagði nei, þannig að þessi ákvörðun er alltaf í höndum þingsins. Við getum tekið ákvörðun um að fjarlægja þessa reglugerðarheimild núna, það mun ekki valda vandræðum fyrir árið 2020 út af t.d. þessu bráðabirgðaákvæði og þá verður það með 9 eða 11% eins og meiri hluti þingsins ákveður. En núgildandi lög hafa áfram gildi á næsta ári eftir því sem ráðherra vill, hvort hann vill breyta því með frumvarpi til laga eða ekki.

Það er pínu flókið að fara yfir þetta. Það eru margir möguleikar í þessu. Það er sá möguleiki að reglugerðarheimildin bæði standist og standist ekki. Og hvað þýðir það ef þetta bráðabirgðaákvæði er sett með 9 eða 11%, hefur ráðherra reglugerðarheimild eða ekki frá og með þessari afgreiðslu þingsins? Það eru margar mismunandi mögulegar niðurstöður, sem er því miður dálítið flókið að fara yfir á þessum stutta tíma. Ég fékk bara rétt kynningu á nefndarálitinu á þessu máli í gærkvöldi og náði ekki alveg að klóra mér í hausnum, ég þurfti að fara og finna málið eins og það var, lesa yfir það og er búinn að vera að reyna að púsla þessu svolítið saman í allan dag. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en bara í kringum hádegi að þetta væri bráðabirgðaákvæði sem ætti bara að vera árið 2022, þetta væri ekki varanlegt ákvæði. Er það er margt svona sem maður hefur svo lítinn tíma til að fara yfir af því að ég er líka staðgengill í efnahags- og viðskiptanefnd, þannig að ég var ekki alveg með frá byrjun málsins.

En þetta er alla vega skýrt og eins skýrt, held ég, og það getur verið. Alþingi er áður búið að taka ákvörðun um að ráðherra eigi ekki að hafa þessa reglugerðarheimild. Þá er mjög auðvelt fyrir okkur án mikilla bollalegginga að taka þessa reglugerðarheimild frá ráðherra. Það er ekkert mál, það er ekkert flókið við það. Það sem gerist er heldur ekkert rosalega flókið, þá taka núgildandi lög við eftir að þessu bráðabirgðaákvæði lýkur, hvort sem Alþingi ákveður að hafa 9 eða 11% skerðingarhlutfall á tekjum fólks miðað við bæturnar eins og þær eru, miðað við frítekjumörkin og svoleiðis. Þannig að ég held að valið sé frekar skýrt út frá þessu sjónarhorni og ég sé enga ástæðu til þess að þingið þurfi neitt að seinka því. Það er séns en ég held að það sé algjör óþarfi. Ef meiri hluti þingsins ætlar að seinka því að taka ákvörðun um það að taka þetta reglugerðarákvæði af ráðherra þá óska ég eftir því að það sé komið hingað í ræðustól Alþingis og útskýrt með mjög skilmerkilegum hætti af hverju og hvað á að gera við þessa heimild á næstunni, því að hún þarf tvímælalaust að fara sem fyrst.