Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Við ræddum þetta mál dálítið mikið í nefndinni í morgun og þá var komin, að því er virtist, niðurstaða um að hafa ekki sérstaka prósentu í frumvarpinu heldur vísa í þá prósentu sem var í núgildandi lögum og reglum. En skýrleiki laga og ýmislegt svoleiðis kemur einhvern veginn í veg fyrir þá lausn mála, að því er mér skilst, sem mér finnst vera mjög óþægilegt. Það er verið að koma í veg fyrir það að við getum tjáð okkur með skilmerkilegum hætti, þótt hann sé ekkert endilega skýr, það er vesen en það getur líka búið til misskilning. Þegar það kom síðan upp að sú breyting ætti ekki að eiga sér stað þá fór ég í þá vinnu að leggja fram breytingartillögu um breytingu á prósentunni. Í þeim umræðum áttaði mig á því að að sjálfsögðu ætti það að fylgja að skerðingarhlutfallið sem Alþingi hafnaði upprunalega færi líka inn í breytingartillöguna og ég bætti því við: Já, heyrðu, vinsamlegast bætið við þessum hluta úr reglugerðarheimildinni í breytingartillöguna. En einhverra hluta vegna skilaði það sér í því að allur töluliðurinn var fjarlægður. Það hefði haft í för með sér að ekki væri hægt að setja reglugerðarheimild um frítekjumarkið. Þá myndi það fara aftur niður í það sem stendur í töflunni sem er í lögunum, sem er gömul tafla síðan 2016 með gömlum upphæðum. Það væri mjög óheppilegt. Við myndum ekki vilja það, alls ekki. Þannig að það var mjög gott að sú villa fannst, þannig að það er bara gott og blessað.