Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er mjög sammála því, sérstaklega því sem hv. þingmaður sagði, sem er alveg rétt, að við vitum ekkert hvernig hlutirnir verða á næsta ári heldur bara hvernig þeir urðu þegar við ákváðum þetta í fjárlögum á hverju ári. En það er samt í fjárlögunum sem við ákveðum þetta til næsta árs. Þá tekur fjármálaráðuneytið sig saman og reiknar, eða býr í raun og veru til samkvæmt þjóðhagsspá o.s.frv. hverjar verðbólguvæntingar eru fyrir næsta ár og hver launaþróunin er fyrir næsta ár og velur hærri töluna. Ítrekað hefur það verið þannig að verðbólguspáin er hærri og það er sú tala sem valin er. Það er mjög oft vanmat. En þá fá lífeyrisþegar þá hækkun strax og í rauninni er það fyrir fram hækkun. Og ef verðbólguspáin stenst út árið þá er hún í lok ársins kannski orðin — þá eru lífeyrisþegar búnir að fá akkúrat þá launahækkun miðað við verðbólgu sem spáð var og taka þá nýtt skref til að vera á undan verðbólgunni. Kerfið er hugsað þannig að lífeyrisþegar séu á undan verðbólgu og á undan launaþróuninni, sem er bara fínt. En þegar það gerist að launaþróun og verðbólgan fara umfram þetta þá eru lífeyrisþegar allt í einu á miðju ári komnir eftir á. Og þegar kemur að áramótum eru þeir farnir að ná upp í það sem var en eru ekki á undan launaþróun, eins og hugsunin hefur annars verið í þessu, af því að þetta er fólk sem er á mjög lágum bótum, náttúrlega, lágum tekjum frá ríkinu, þannig að það er eðlilegt að það sé ákveðin kjarabót í því að vera á undan kúrfunni í þessu efni. Raunin er sú að þeir eru langt á eftir, því miður.