Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við sem þjóð ættum að vinna að því að koma hér upp norrænu velferðarkerfi. Það er auðvitað bara þannig að þjóðir heims öfunda Skandinavíu af velferðarkerfinu þar, þar sem samneysla er til staðar, þar sem hugsað er um þá sem þurfa á því að halda. Það eru ákveðnir þættir sem hið opinbera sér um en síðan fá einstaklingar frelsi til að gera það sem þá lystir þar fyrir utan. Ég reiknaði svo sem með því að tilgangur þeirra sem lögðu fram þetta frumvarp hafi verið sá að styðja við og styrkja þá sem mest þurfa á því að halda. Fram komu hugmyndir um að bregðast við stöðunni, þessari verðbólgu sem komin er upp, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Þá fékk maður að heyra að ríkisstjórnin ætlaði sér að bregðast við með einhverjum hætti. En eins og hér hefur komið fram þá lagði Samfylkingin, og ég var meðflutningsmaður, fram tillögu, ekki bara nýverið heldur rétt eftir áramót, um að standa við bakið á og styðja þá hópa sem orðið hafa fyrir barðinu á þeirri verðbólgu sem nú geisar. En okkur þykir á köflum fullseint í rassinn gripið og hefði mátt bregðast við fyrr. En gott og vel, allt er betra en þetta og við sjáum þarna aðgerðir sem eru að mörgu leyti af hinu góða. Þess vegna hef ég og við sem sitjum í minni hluta í efnahags- og viðskiptanefnd lýst þeirri skoðun okkar að við séum tilbúin til að styðja þær tillögur sem þarna birtast. Þarna er um að ræða lög um tekjuskatt, við erum að ræða lög um almannatryggingar og við erum að ræða lög um húsnæðisbætur. Þetta eru þrenn lög sem við erum að breyta á einu bretti. Ég verð nú bara að segja að mér finnst það fjarska flókið að takast á við að breyta einum lögum, þótt sé ekki verið að breyta þrennum lögum í einu, en það er nú hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar að gera það. Oft hefur þetta verið kallað bandormur en nefndin hefur með höndum slík verk, þ.e. að takast á við að breyta mörgum lögum til að ná fram einhverjum ákveðnum markmiðum sem felast m.a. í stuðningi við þá sem verst standa núna og ég þarf bara að hafa mig allan við til að ná utan um það.

Þess vegna fannst mér svolítið sérstakt að upplifa það í gær að vera kallaður til fundar við efnahags- og viðskiptanefnd um kvöldmatarleytið þar sem maður var upplýstur um að reyna ætti að ná þessu máli út úr nefndinni strax þá og svo til umræðu með afbrigðum á þinginu í dag, sérstaklega vegna þess að við vorum ekki undir það búin að leggja fram álit. Við þurftum tíma til að leggja fram álit og maður gerir það ekki bara með vinstri hendinni. Það var lítill fyrirvari á þessu. En oft er nú sagt: Já, þetta er gott verk, við verðum að koma þessu áfram. En, jú, það er þannig, þetta er gott verk en það er búið að liggja fyrir í margar vikur og marga mánuði að það þurfi að grípa til aðgerða til stuðnings þessum hópum og fleiri hópum í raun og veru, ekki endilega bara þessum hópum, enda nefnum við í áliti minni hluta þá hópa sem við teljum að þurfi að horfa til.

En bara svo maður fari aðeins yfir þetta frumvarp eins og það liggur fyrir þá er þarna um að ræða að verið er að borga út það sem kallað er barnabótaauki, einhverja eingreiðslu upp á 20.000 kr. sem á að vera skatta- og skerðingarlaus, sem er af hinu góða, þannig að fólk sem á börn fær þá þessar 20.000 kr., þegar þetta frumvarp hefur verið samþykkt, sem eingreiðslu. Og fyrir barnmargar fjölskyldur kemur það sé vel.

Við sjáum líka hækkun bóta í almannatryggingakerfinu, hækkun bóta til öryrkja og til eldri borgara um 3%, og svo það sé ekki bara tekið í burtu er verið að hækka frítekjumörk um sömu tölu, og síðan eiga húsnæðisbætur að hækka um 10%. Allt er þetta fínt og ég styð að þetta sé gert með þessum hætti. En við í minni hlutanum töldum eðlilegt og rétt að benda á fleiri hópa sem orðið hafa fyrir barðinu á þeim óstöðugleika sem virðist sýknt og heilagt vera að dúkka upp á Íslandi með verulegum skaða fyrir almenning í landinu, verðbólgudraugurinn, eins og hann hefur oft verið kallaður. Við erum komin með verðbólgu hátt á áttunda prósent og það er farið að bíta verulega í hjá mörgum. Þess vegna teljum við eðlilegt og bendum á að það sé skoðað með einhverjum hætti að styðja við þá hópa sem hafa fjárfest í húsnæði við aðstæður sem voru aðrar og betri en sitja nú uppi með kostnað sem ekki hefur fengist bættur með neinum hætti.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað um að hann vildi helst útiloka vaxtabætur, en þetta er hópurinn sem hefði svo sannarlega þurft á vaxtabótunum að halda núna. Þannig að við bendum á að það þyrfti að koma til móts við þennan hóp. Eins hvað varðar atvinnuleysistryggingar, að ekki sé verið að láta þá sem lifa á atvinnuleysisbótum einvörðungu sitja eftir þegar verið er að tala um að hækka útgreiðslur úr tryggingakerfunum okkar eða millifærslukerfunum. Það er ósanngjarnt að þessi hópur skuli vera látinn sitja eftir. Margir eru í þeirri stöðu að hafa misst vinnuna vegna faraldurs sem þeir réðu ekkert við og hafa orðið leiksoppar aðstæðna sem enginn réði við, fólk sem hefur kannski verið úti á vinnumarkaði með meðallaun, miðað við að meðallaun í landinu eru upp á 600.000–700.000 kr., en síðan farið á atvinnuleysisbætur í marga mánuði upp á rúm 300.000 kr. Sá hópur lifir ekkert í vellystingum og það væri bara eðlilegt að þessi hópur myndi njóta þeirra breytinga sem verið er að gera á útgreiðslum úr almannatryggingakerfinu okkar á sama hátt og eldri borgarar og öryrkjar.

Þetta er kannski stóra málið í þessu alla vega hvað mig varðar. En ég verð nú bara að viðurkenna að þar sem ég er nýr á þingi þá varð ég órólegur þegar ég áttaði mig eftir ábendingar frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni í efnahags- og viðskiptanefnd um lögin um húsnæðisbætur, þegar hann benti á að þar stönguðust hugsanlega á greinar, þessi svokallaða 17. gr., sem hefur verið nefnd hér, og 30. gr. Síðan fór hv. þingmaður ágætlega yfir það í ræðustóli í dag að í nefndaráliti hefði verið lögð á það áhersla að það væri ekki rétt að ráðherra hefði slíka heimild að breyta skerðingu í húsnæðisbótakerfinu og það væri bara ráðherra í sjálfsvald sett hvernig með það væri farið. Maður verður að velta því fyrir sér: Ef það er vilji að setja það í hendurnar á einum einstaklingi að ákveða skerðingarmörkin í kerfinu þá gæti ráðherra bara hækkað það upp í 50% þegar honum dytti í hug. En miðað við nefndarálitið, sem hefur verið rakið hér uppi í pontu í dag, þá stóð vilji þingsins til að taka þetta af ráðherra, að hann ætti ekki að hafa þessa heimild. Það yrði þá bara að vera þingsins að gera það ef það ætti að gera yfir höfuð. Ég vil af þessu tilefni benda á að í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um þetta frumvarp, þar sem þau tóku í raun og veru undir það góða sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi, þá benda þau á einmitt þetta. Með leyfi forseta, langar mig að lesa hvað stendur:

„Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2016 segir að við útreikning húsnæðisbóta skuli lækka grunnfjárhæðir skv. 2. mgr. 16. gr. um fjárhæð sem nemur 9% af samanlögðum árstekjum heimilismanna. Þrátt fyrir skýrt lagaákvæði þar um segir í 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 að lækka skuli grunnfjárhæð um sem nemur 11% af samanlögðum árstekjum heimilismanna. Skerðingarhlutfallið var hækkað með breytingarreglugerð nr. 1156/2019 sem tók gildi 1. janúar 2020. Þó að það séu reglugerðarheimildir/-ákvæði í lögum nr. 75/2016 er varða grunnfjárhæðir og frítekjumörk þá er ekki að finna heimild til að breyta skerðingarhlutfallinu með reglugerð. Fyrirhuguð lagabreyting um að 11% skerðingarhlutfall gildi frá 1. janúar 2022 er því á skjön við skýrt núgildandi ákvæði laga nr. 75/2016 og felur í reynd í sér skerðingu afturvirkt. Ljóst er að þetta hefur mikla þýðingu fyrir þá sem eru yfir núverandi frítekjumörkum.“

Þetta er ábending frá Öryrkjabandalag Íslands sem mér finnst að okkur beri að taka alvarlega. Þetta var rætt heilmikið í morgun og maður veltir fyrir sér, þrátt fyrir að við séum að gera breytingar, eins og þetta heitir, á tekjuskatti, á húsnæðisbótum og á lögum um almannatryggingar, að við nefnum þetta yfir höfuð í þessu frumvarpi af því að annaðhvort er þessi reglugerð heimil eða óheimil. Hér er nefnt að ef við ætlum að fara að agnúast út í þetta þá séum við að tefja málið. En það hefði verið ágætt að sleppa því að ræða þetta mál inni í þessum pakka sem snýr í raun og veru einvörðungu að því að bæta hag þeirra sem lægst hafa launin eða bágastar aðstæður. Þannig að við hefðum alveg getað látið þetta liggja utan garðs og tekið þetta mál til sérstakrar umræðu, hvort við teldum eðlilegt að einn ráðherra hefði slíkar heimildir eða ekki. Miðað við þetta á greinilega að heimila það en ég held að það sé tími til kominn að endurskoða það.

Við erum tilbúin til að styðja við þetta mál en við í minni hluta leggjum til breytingartillögur, bæði um þetta skerðingarákvæði og einnig um að þeir sem eru í þeirri stöðu að vera á atvinnuleysisbótum fái sams konar hækkun og gildir um þá sem fá bætur úr almannatryggingakerfinu.