Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Herra forseti. Hvers vegna lætur stjórnarmeirihlutinn atvinnuleitendur sitja eftir? Hvers vegna ætlar ríkisstjórnin að láta grunnatvinnuleysisbætur rýrna að raunvirði næstu mánuðina? Þau svör sem ég hef helst fengið eru eitthvað á þá leið að það sé nú bara næga vinnu að hafa í landinu, við verðum að horfa til þess hvernig staðan er á vinnumarkaði, hvernig atvinnustigið hefur verið að þróast. Þetta sagði hæstv. fjármálaráðherra hér í orðaskiptum við mig í síðustu viku. Þarna virðist vera undirliggjandi sú hugmynd að fólk sé kannski að megninu til, stór hópur fólks, á atvinnuleysisskrá bara algerlega af fúsum og frjálsum vilja og að hófleg hækkun atvinnuleysisbóta hljóti að fjölga fólki á atvinnuleysisskrá. Hér fær maður svolítið déjà vu. Ég man að í ágúst 2020, þegar atvinnuleysi hafði rokið upp í hæstu hæðir vegna heimsfaraldurs, þá mætti hæstv. fjármálaráðherra í Kastljós og lagðist mjög eindregið gegn hækkun atvinnuleysisbóta. Hann rökstuddi afstöðu sína á þann veg að hann hefði spjallað við ýmsa atvinnurekendur hér og þar og þeir kvörtuðu undan því að það væri erfitt að fá fólk til að gegna láglaunastörfum af því að atvinnuleysisbætur á Íslandi væru ekki nógu lágar. Þetta var svona inntakið í Kastljósviðtalinu og talað um bjögun sem hækkun atvinnleysisbóta hlyti að valda. Ég vildi óska þess að fjármálaráðherra hlustaði jafn vel á atvinnurekendurna sem finna sig knúna til að stíga fram í fjölmiðlum og vara eindregið við því að starfsmenn þeirra séu hraktir úr landi vegna útlendingastefnu þessarar ríkisstjórnar. En gott og vel.

Ég gerði mér það einu sinni að leik að skoða umræður sem áttu sér stað á Alþingi árið 1935 — ætli það hafi ekki verið þingmenn Alþýðuflokksins sem voru að berjast fyrir því með kjafti og klóm að koma á fót almennilegum atvinnuleysistryggingum. Slíku kerfi, þ.e. einhverju sem nálgast núverandi kerfi, var reyndar ekki komið á fyrr en árið 1955. Þá höfðu Sósíalistar flutt 10–12 frumvörp sem höfðu öll verið felld eða ekki komist almennilega á dagskrá. Það eru nokkrar skemmtilegar tilvitnanir hérna:

„Við Sjálfstæðismenn leggjumst á móti atvinnuleysistryggingum“, sagði Thor Thors. Samflokksmaður hans bætti við: „Það er beinlínis verið að leggja fram fé til þess að viðhalda atvinnuleysinu með því að leggja fram fé til svokallaðra atvinnuleysistrygginga.“ Sá þriðji úr sama flokknum bætti því við að atvinnleysistryggingar hlytu að verða til þess að deyfa sjálfsbjargarhvöt manna og þeir reyndu þá síður að sjá sér farborða til hins ýtrasta.

Sem sagt: Atvinnuleysisbætur; því hærri sem þær eru, því verr eru þær til þess fallnar til að svelta fólk inn í atvinnusamband. Þetta er í sjálfu sér alltaf sami söngurinn svona í grunninn. Hann var miklu groddalegri þarna í den, en það virðist einhvern veginn enn þá gert ráð fyrir því að hækkun atvinnuleysisbóta hljóti að hafa mjög skaðleg efnahagsáhrif og þetta séu mjög skaðlegir hvatar.

Við skulum bara fara aðeins yfir þetta, skoða litteratúrinn. Það ríkir nefnilega enginn einhugur meðal fræðimanna um áhrif atvinnuleysisbóta á atvinnuleysisþróun, t.d. hvort og hvenær áhrifin á vinnuvilja fólks séu merkjanleg og við hvaða kringumstæður kostnaðurinn af slíkum hvötum vegi þyngra en öll jákvæðu áhrifin af hækkun atvinnuleysisbóta. Nú hafa ýmsir fræðimenn leitt rök að því að háar bótafjárhæðir veittar yfir langt tímabil geti kynt undir atvinnuleysi. En svo er líka til fjöldinn allur af rannsóknum sem bendir til þess að áhrifin séu hverfandi og blikni í samanburði við aðra þætti. Sumir halda því jafnvel fram að það sé undir ákveðnum kringumstæðum bara neikvætt samband milli atvinnuleysisbóta og atvinnuleysis. Það hefur a.m.k. margsinnis verið sýnt fram á samfélagslegan og efnahagslegan ávinning af því að atvinnuleysisbætur séu nógu háar til að atvinnuleitendur geti lifað með reisn og hafi svigrúm til að finna sér starf sem hæfir menntun þeirra, bakgrunni og reynslu. Þessu verður að halda til haga. Fólk sem heldur því fram eða ýjar að því að háar atvinnuleysisbætur eða hækkun atvinnuleysisbóta hljóti að leiða til stóraukins atvinnuleysis verður líka að útskýra hvernig stendur þá á því að þau ríki sem búa við mesta atvinnuþátttöku eru alla jafna sömu ríkin og viðhalda sterkustu og örlátustu atvinnutryggingakerfum heims. Þannig er það bara.

Svo er annað sem þarf að hafa í huga og hefur líka verið rannsakað mikið á undanförnum árum, sem er samspil atvinnuleysistrygginga og mismunandi stofnanaumhverfis á vinnumarkaði. Í nýlegri rannsókn á atvinnleysisþróun í 20 Evrópuríkjum koma fram vísbendingar um að í þjóðfélögum þar sem víðtæk stéttafélagsaðild fer saman við miðlæga kjarasamningsgerð, svona eins og á Íslandi, séu háar atvinnuleysisbætur síður til þess fallnar að ýta undir atvinnuleysi en annars staðar. Þetta er rannsókn frá 2017. Og ef einhver er forvitinn þá er ég boðinn og búinn til að senda hlekk á allt það sem ég er að tala um í þessari ræðu.

En að því sem hér er til umræðu. Nú er það þannig að eftir mikinn þrýsting verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar árið 2020 voru atvinnuleysisbætur hækkaðar talsvert. Þær hafa dregist rækilega saman að raunvirði núna eða þær eru að dragast saman að raunvirði í þeirri verðbólgu sem við sjáum núna. En þær voru hækkaðar árið 2020. Árið 2021 gekk atvinnuleysi mjög hratt niður og ég hef ekki séð nein gögn, og ég hef reyndar aldrei séð því haldið fram einu sinni að hækkun atvinnuleysisbótanna hafi hægt á þeirri þróun árið 2021. Ef það eru til einhver gögn í fjármálaráðuneytinu sem benda til þess þá finnst mér að þau mættu nú gjarnan koma fram í svona umræðu.

Núna standa grunnatvinnuleysisbætur í 313.729 kr. Ég hef nefnt áður að þetta er fjórðungur af laununum okkar hérna. Þetta er mjög lág fjárhæð og ég held að það sé ekkert nema sjálfsagt, mannúðlegt og eðlilegt að láta þessa fjárhæð, grunnatvinnuleysisbæturnar, fylgja hækkuninni á bótum almannatrygginga. Við erum í okkar breytingartillögu að leggja til nákvæmlega þetta, að það komi þarna 3% hækkun, fari úr 313.729 kr. upp í 323.141 kr. Þetta snýst m.a. um samstöðu með fólki sem er án vinnu, verja þetta fólk fyrir verðbólgunni, rétt eins og fólkið sem reiðir sig á almannatryggingakerfið. Þetta er svo ofboðslega sjálfsagt, bara rétt eins og þetta fylgir venjulega hækkuninni á almannatryggingum í fjárlögum á hverju ári. Þannig hefur það verið undanfarin ár og því hefur verið lýst sem venju. ASÍ styður þessa tillögu, BSRB styður hana, BHM styður hana, öll stéttarfélögin sem hafa skilað inn umsögnum um þetta mál eru sammála okkur um þetta. Ég vil bara ekki trúa því að stjórnarliðar ætli í alvörunni að fella þessa tillögu. Það væru mjög vond skilaboð, það er vond velferðarpólitík. Ég vil ekki trúa því að stjórnarliðar ætli að fella þessa sjálfsögðu tillögu, nema þá að það verði gefin skýr fyrirheit í salnum og uppi í þessari pontu um að hæstv. félagsmálaráðherra ætli að bregðast við og breyta fjárhæðinni í reglugerð og gera það strax, um leið og þetta frumvarp tekur gildi.