Bráðabirgðaútgáfa.
152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég bað um það í umræðunni áðan að þáverandi félags- og barnamálaráðherra myndi gera þinginu grein fyrir því hvaða upplýsingar hann hefði haft um vilja þingsins þegar reglugerðin var sett árið 2019, þ.e. sem hann setti árið 2019, en hann hefur ekki orðið við því. Kannski verður hann við því núna í 3. umr. ef hann er ekki of upptekinn í símanum. Ég spurði líka um hvort meiri hlutinn myndi gera grein fyrir því hvað þau vildu gera við reglugerðarheimild frumvarps um húsnæðisbætur ef þau höfnuðu því að taka burt reglugerðarheimild ráðherra vegna skerðingarhlutfallsins. En enginn hefur beðið um orðið, sem mér finnst áhugavert því að þessir flokkar sem eru í meiri hluta vildu ekki hafa þessa reglugerðarheimild fyrir ráðherra árið 2016, enginn þeirra. Ég veit ekki hvort þau eru búinn að skipta um skoðun eða hvort það sé eitthvað eins og: Æ, minni hlutinn stakk upp á þessari breytingu en sá þennan galla, við getum ekki lifað við það að samþykkja það. — Eða hvort þau eru með einhver önnur plön. Það væri mjög gott ef þau myndu nota ræðustól Alþingis til þess að upplýsa þing og þjóð um hvað á að gera við þessa reglugerðarheimild. Á iðnaðarráðherra, sem er ekki einu sinni hérna, bara að hafa leyfi til að hækka skerðingarhlutfallið í 13, 15, 20, 50% eftir því sem honum hentar í reglugerð? Er það það sem meiri hlutinn vill? Er það ekki ástæðan fyrir því að meiri hlutinn hafnaði því að ráðherra hefði slíka reglugerðarheimild árið 2016? Ég held að það sé frekar augljóst. Það er alla vega samkvæmt nefndarálitinu sem segir skýrt, með leyfi forseta:

„Nefndin telur óæskilegt að veita ráðherra slíka heimild án nánari afmörkunar og leggur því til að málsliðurinn falli brott.“

Rosalega skýrt. Í þessari heimild eru tvö atriði; annars vegar að setja reglugerð um frítekjumark og hins vegar um skerðingarhlutfall. Varðandi frítekjumarkið er það skýrt sett fram að ráðherra skal setja reglugerð um hækkun frítekjumarks ef launaþróun og efnahagshorfur þróast á þann veg. Það er beinlínis skylda fyrir ráðherra að hækka frítekjumarkið samkvæmt launaþróun og efnahagsþróun. Ekkert svoleiðis með skerðingarhlutfallið, augljóslega, enda er það allt annars eðlis. En meiri hlutinn hérna vill halda þessu. Ég veit ekki af hverju. Það er ekki búið að útskýra það. Ég skil ekki af hverju það er enginn hérna sem segir: Ég skal koma að útskýra. Hvað er í gangi? Einhver? Nei. (SÞÁ: Ég gerði það í … og í andsvari í dag.) Nei, það var ekki útskýrt ef því yrði hafnað, ef haldið yrði áfram að vera með þetta ákvæði, reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Ég veit ekki hvað á að gera við það. Á þetta bara að vera hérna áfram af eilífu eða verðum við að treysta á það að velferðarnefndin taki það upp að eigin frumkvæði? Þá er mjög auðvelt að koma hingað og útskýra og segja það bara: Já, við ætlum að setja í hendurnar á velferðarnefnd, ekkert mál. En bara vinsamlegast, útskýrið það fyrir okkur.