Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

um fundarstjórn.

[18:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Forseti. Nú er lögreglan í óðaönn að undirbúa mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar; það á að reka 270 flóttamenn úr landi. Þetta er fólk með viðurkennda stöðu flóttamanns og mörg hver munu lenda á götunni í Grikklandi og Ungverjalandi þar sem ástandið er ömurlegt. Dómsmálaráðherra getur komið í veg fyrir þetta með leiðbeinandi tilmælum eða með afmörkuðum reglugerðarbreytingum. Ríkisstjórnin hefur það í hendi sér að tryggja að fólk sem hefur dvalið lengi á Íslandi vegna fordæmalausra aðstæðna í heimsfaraldri fái að búa hérna áfram, vinna á Íslandi, auðga samfélagið okkar. Ef ráðherra kemur ekki í veg fyrir þessa ósvinnu þá verður Alþingi, þá verða mannúðar sinnar hér úr öllum flokkum, úr stjórn og stjórnarandstöðu, að hafa hraðar hendur á næstu dögum og sameinast um nauðsynlegar lagabreytingar.

Ég vil óska eftir því við hæstv. forseta að hann og við öll hér á þinginu sýnum sveigjanleika, verum í viðbragðsstöðu ef þetta er það sem þarf að gera, ef Alþingi þarf að stíga inn með mjög afgerandi hætti í þágu skynsemi og mannúðar.